145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

fullgilding stofnsamnings um Innviðafjárfestingabanka Asíu.

436. mál
[12:14]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Verði það svo að DAC úrskurði með þeim hætti, sem við fáum að vita innan nokkurra vikna, að framlög til þessa banka eða þessi fjárfesting teljist til þróunarsamvinnu vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki algjörlega á hreinu að það verði hrein viðbót við framlög Íslands til þróunarsamvinnu og verði ekki nýtt til þess að draga enn frekar úr þeim. Þá er ég náttúrlega að vitna í hlutfallið en ekki krónutöluna.

Hins vegar langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um eitt af því að ég þekki það hreinlega ekki nægilega vel. Við erum með banka sem heitir Þróunarbanki Asíu og aðild að Innviðafjárfestingabanka Asíu er til dæmis boðin þeim sem eru aðilar að Þróunarbanka Asíu. Getur hæstv. ráðherra útskýrt fyrir mér nákvæmlega muninn á Þróunarbanka Asíu annars vegar og Innviðafjárfestingabanka Asíu hins vegar?

Stofnskjölin eru undirrituð í Peking eftir því sem mér sýnist á greinargerðinni. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort Kínverjar séu þá leiðandi í þessu samstarfi. Hæstv. ráðherra nefndi nauðsynina á innviðafjárfestingu í til dæmis raforkukerfum og öðru slíku í Asíu og ég spyr hvort einhver svæði séu þar undir fremur en önnur. Er þá einhver sérstök landfræðileg þungamiðja í þeim aðilum sem taka þátt, þ.e. eru það Kínverjar fyrst og fremst eða eru mjög sterkir aðilar annars staðar í Asíu sem koma að því? Ég er að spyrja um pólitísku stöðuna innan bankans og hverjir ráða þar för.

Að lokum vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvað hann sjái fyrir sér varðandi mögulegan ávinning Íslendinga af þátttöku í bankanum. Gæti hann á þessum örstutta tíma farið yfir tækifærin sem hann sér í því væntanlega fyrir Ísland að verða aðili þarna?