145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

ársreikningar.

456. mál
[13:42]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem er mikilvægt í baráttunni gegn kennitöluflakki, sem ég tek undir með hv. þingmanni að er meinsemd sem við öll, sama hvar í flokki við erum, deilum skoðunum um að þurfi að uppræta, er að gæta að ákveðnu jafnvægi. Við viljum ekki koma með íþyngjandi aðgerðir sem miða að því að uppræta vandamál sem er einungis hjá hluta þeirra sem reka atvinnurekstur en munu bitna á öllum hinum líka sem stunda heiðvirðan og góðan atvinnurekstur hvar sem er í atvinnulífinu.

Þegar við hófum þessa vinnu rákumst við á það að við höfðum ekki nægilega góðar upplýsingar um þá sem stunda þetta athæfi sem nefnt hefur verið kennitöluflakk en er ekki til í lagabókstafnum. Ef það væri til eitthvað sem héti kennitöluflakk værum við öll væntanlega búin að sameinast um að banna það. En kennitöluflakk er athæfi þegar menn keyra atvinnurekstur í þrot gagngert til þess að skilja eftir skuldbindingar, hvort sem þær eru skattaskuldbindingar eða skuldir gagnvart birgjum, og stofna annað fyrirtæki lausir allra mála og hafa þá skekkt samkeppnisstöðuna sem því nemur.

Þetta frumvarp hef ég sagt að sé nauðsynlegur undanfari annarra vegna þess að þarna erum við að hreinsa til í skránni og skoða mengið „fyrirtæki á Íslandi“. Við sjáum betur hvaða fyrirtæki eru í rekstri. Við erum að hreinsa út af skránni þau fyrirtæki sem eru ekki starfandi og eru oft þau fyrirtæki sem eru notuð í þeim tilgangi að taka yfir nýjan rekstur.

Þær aðgerðir sem eru í boði til þess að takast á við vandann í framhaldinu geta orðið mjög (Forseti hringir.) íþyngjandi ef þær bitna á öllum hinum. Á sama tíma og við viljum ná þessum rekstraraðilum viljum við ekki grafa undan frumkvöðlastarfsemi og grósku og (Forseti hringir.) nýsköpun í samfélaginu. Þetta er liður í því.