145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

457. mál
[14:22]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef ég skildi hv. þingmann rétt var hún að spyrja hvort ekki væri örugglega rétt að ekki væri gerð krafa um útleigu í 90 daga samfellt heldur samtals þá er það réttur skilningur. Það er samtals yfir árið fyrir þær tvær eignir sem um ræðir.

Eftirlitið færist frá lögreglu til sýslumanna. Tekið er fram bæði í greinargerð og í kostnaðarumsögn frá fjármálaráðuneytinu að bæta þurfi fjármunum við. Það kom skýrt fram hjá fulltrúa innanríkisráðherra. Það er reyndar þannig varðandi þetta, eins og kemur vel fram í kostnaðarumsögninni, að önnur verkefni falla niður þannig að verið er að togast á eins og alltaf um það hvað þetta mun kosta. En það er algerlega skýrt að ef þetta á að ganga upp verður að vera eftirlit. Menn verða að vera vissir um að ef þeir skila ekki tilskildum gögnum eða stunda þessa starfsemi í lengri tíma en leyfilegt er eru viðurlög við því og það verður haft eftirlit með því.

Fólk fer fram hjá þessu núna, segir hv. þingmaður. Það er rétt. Það er raunveruleikinn sem við erum að glíma við. Ein skýringin á þeim raunveruleika er að umsóknarferlið og regluverkið í kringum þetta er of flókið. Hér erum við að bregðast við því. Við rennum auðvitað blint í sjóinn því að þetta er nýtt. Við erum að reyna að ná utan um þennan nýja veruleika. Ef í ljós kemur að það dugar ekki til verður það að sjálfsögðu metið. En það verður mjög fróðlegt að sjá hvernig þessi lagasetning, sem er gríðarleg einföldun fyrir akkúrat þann hluta sem varðar einstaklingana, mun hafa til þess að færa þessa starfsemi meira upp á yfirborðið. Núna er það þannig að menn falla í efri flokk í fasteignagjöldum ef þeir leigja út. (Forseti hringir.) Þeir þurfa að sækja um rekstrarleyfi, heilbrigðisvottorð og allt það sem fælir fólk frá því að skrá, (Forseti hringir.) en kannski stundar fólk þessa starfsemi þrátt fyrir það.