145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2015.

462. mál
[11:35]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég varð svolítið dapur yfir þessu svari hv. þingmanns. Ég gerði, að mér þótti, heiðarlega tilraun til að eiga málefnalega viðræðu við hv. þingmann um eitt tiltekið atriði. Í því eru fólgnir miklir hagsmunir fyrir Íslendinga og íslenska útflutningsverslun, varðar fríverslun við Japan.

Ég skýrði það út í ræðu minni hvers vegna ekki væri flötur á því að beita EFTA af jafn miklum þunga og endranær í fríverslunarsamningum gagnvart þeim hagsmunum sem við höfum við Japan. Hvert var svar hv. þingmanns? Jú, hann er eins og margir stríðsmenn fastur í skuggastríði, það var bara ESB sem komst að hjá honum. Ég hef aldrei dulið nokkurn mann þess að ef Ísland gengi í Evrópusambandið mundu allir fríverslunarsamningarnir falla niður. Þeir eru meira að segja allir taldir upp í skýrslu sem ég hef lagt fyrir þetta þing, og ekki bara einni skýrslu heldur tveimur. Ég hef sömuleiðis svarað um þetta þinglegum fyrirspurnum.

Ég skal þá ekki taka meiri tíma af ræðum hv. þingmanns til að reyna að eiga við hann málefnalegar viðræður um þetta. Spurning mín var þessi: Telur hann ekki að þörf sé á því að þingið sýni stuðning sinn við tillögur sem hér hafa komið fram árum saman um fríverslun við Japan? Ástæðan er sú að miklir viðskiptahagsmunir eru þar undir. Við erum að greiða toll af öllum afurðum sem við flytjum til Japans. það hallar mjög á Íslendinga í samskiptum við Japan að því marki að obbinn af þeim vörum sem Japanar flytja hingað inn, sem eru margir milljarðar á hverju ári, er tollalaus. Nánast allt sem við flytjum til Japans ber hins vegar tolla.

Ég hef ekki talað fyrir daufum eyrum í þessu þingi, því að ég hef notið mikils skilnings. Hv. þingmaður hefur alltaf verið mjög harður fríverslunarsinni og það er þess vegna sem mér finnst ekkert óeðlilegt við að ég noti þessa umræðu, þó að málið tengist ekki EFTA nema óbeint, til að spyrja hann út í það hvort ekki sé tímabært, þegar utanríkismálanefnd er í næsta mánuði að fara í opinbera heimsókn til japanska þingsins og á 60 ára stjórnmálasambandsafmæli Íslands og Japans, að menn geri þetta núna.