145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

NATO-þingið 2015.

474. mál
[14:17]
Horfa

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Mér er það ánægjuefni að hafa hér framsögu fyrir skýrslu Íslandsdeildarinnar í fjarveru ágæts kollega míns, hv. þm. Þórunnar Egilsdóttur, sem hefur gegnt stöðu formanns Íslandsdeildarinnar á þessu kjörtímabili. Auk okkar tveggja á hv. þm. Birgir Ármannsson sömuleiðis sæti í Íslandsdeildinni.

Það er óhætt að fullyrða að það hefur ríkt mikil eindrægni innan þess hóps sem hefur sinnt störfum fyrir þingið gagnvart NATO-þinginu. Það skiptir máli þegar um jafn flókinn og viðkvæman málaflokk er að ræða og varnar- og öryggismál að það takist bærileg samstaða. Það hefur tekist, a.m.k. innan Íslandsdeildarinnar. Þingmenn sem þar sitja hafa verið duglegir að sækja þá fundi sem þeir hafa átt kost á að koma á til þess að koma á framfæri skoðunum og viðhorfum Íslendinga. Sömuleiðis voru haldnir fjórir fundir innan deildarinnar hér heima til undirbúnings málflutningi á ýmsum ráðstefnum og þingum.

NATO-þingið hefur verið við lýði síðan 1954. Það hefur verið vettvangur fyrir þingmenn aðildarríkja allra NATO-ríkjanna til þess að ræða um öryggis- og varnarmál. Fyrir utan þau 28 ríki sem eiga aðild að samtökunum eru þar með aukaaðild nokkur ríki sem áður tilheyrðu hinni svokölluðu Sovétblokk, Austur-Evrópuríki sem nú hafa tekið upp aðra stjórnarhætti, ein tíu þeirra eiga fulltrúa á NATO-þinginu og auk þess fjögur hlutlaus Evrópuríki, þ.e. Austurríki, Sviss, Svíþjóð og Finnland.

Ég ætla ekki í löngu máli að reifa einstakar ráðstefnur eða fundi sem við höfum sótt fyrir hönd þingsins heldur einungis greina frá því að á því ári sem skýrslan nær til hefur tvö mál borið langhæst, ástandið í Úkraínu og kólnandi samskipti NATO og Rússlands í kjölfar hernaðaraðgerða Rússa í Úkraínu. Viðbrögð NATO-þingsins við innlimun Rússa á Krímskaga á árinu þar á undan, 2014, voru mjög afgerandi. Þau voru rædd í þaula á fundum þingsins og leiddu til þess að á vorfundi NATO-þingsins í Búdapest 2015 tók stjórnarnefndin þá ákvörðun að vísa Rússum úr þeirri stöðu sem þeir höfðu sem aukaaðildarríki að NATO-þinginu. Þetta eru stórtíðindi. Á árunum á undan höfðu Rússar tekið mjög virkan þátt í störfum þingsins og verið ódeigir við að koma á framfæri sjónarmiðum sínum.

Skemmst er að minnast þeirrar miklu þíðu sem manni fannst bresta á árið 2008 þegar þáverandi forseti Rússlands, Medvedev, kom til fundar við leiðtoga NATO-ríkjanna í Lissabon og flutti þar boðskap sem mönnum sem á hlýddu fannst að boðaði nýja sýn og mjög eindreginn vilja Rússa á þeim tíma til þess að bæta samskipti við Vesturlönd. Á árunum á eftir gætti þessa mjög og utanríkisráðherra Rússa var tíður aufúsugestur á NATO-þingum. Þar hélt hann fram af nokkurri hörku málstað þjóðar sinnar en var vel tekið og tók mjög virkan þátt í ýmsum umræðum, eins og t.d. um það með hvaða hætti bandalagið á sínum tíma hugðist setja upp skotflaugastöðvar í Evrópu í varnarskyni. Var óhætt að segja að málflutningur rússneska utanríkisráðherrans skipti máli og bæði skerpti skilning og vann hann skoðunum sínum eftir atvikum fylgi, a.m.k. aukinn skilning í því tiltekna deilumáli.

Hitt málið sem var langoftast í umræðu er staðan í Miðausturlöndum og sá mikli flóttamannavandi sem segja má að hafi sprottið eftir að byrjuðu að springa þær púðurtunnur sem segja má að hafi verið grafnar í sandinn. Ég ætla í þessari framsögu minni fyrst og fremst að reifa það sem er hin sameiginlega skýrsla okkar þriggja, en auðvitað eftir atvikum að koma að eigin viðhorfum.

Það er ekkert launungarmál að ég er þeirrar skoðunar að flóttamannavandann sem nú hefur dunið á Evrópu af mjög miklum þunga megi að verulegu leyti rekja til þeirrar ákvörðunar sem tekin var 2003 um sameiginlega innrás margra ríkja í Írak. Þegar Bandaríkin og herir sem þeim fylgdu hurfu að lokum þaðan leiddi það til upplausnar í landinu. Eftir var skilið tómarúm. Ef eitthvað er þekkt úr sögu alþjóðastjórnmála er það að hvarvetna þar sem skapast tóm koma einhverjir og fylla það. Eins og við höfum séð leiddi það til þess að hermdarverkasamtök eins og al Kaída grófu um sig í Írak og bókstaflega tóku á sitt vald stóran hluta af því landi. Sömuleiðis sendu þau legg úr sínum bol yfir til Sýrlands sem fæddi af sér þau samtök sem hafa á síðasta ári valdið hvað mestri skelfingu á Vesturlöndum með hermdarverkum, samtök sem kalla sig íslamska ríkið. Ég kýs frekar að kalla þau Daesh eins og flestir sem ekki eru hallir undir það bandalag. Daesh mætti flokka sem hrakyrði á arabísku og notkun þess orðs um bandalagið helgast af því að ekki á að gefa þeim mönnum sem kalla sig íslamska ríkið nokkurn rétt til þess að misnota á þann hátt heiti eða nöfn tengd íslam. Ég er þeirrar skoðunar að í hvert skipti sem menn nota heitið íslamska ríkið séu þeir í reynd að strika undir styrkleika þeirra sem þar ráða ríkjum.

Það er mín skoðun, sem einnig á hljómgrunn í umræðum á fundum NATO-þingsins, að þessi aðgerð frá árinu 2003 eigi að verulegu leyti sökina á þeirri stöðu sem síðan hefur komið upp að því er varðar flóttamennina sem hafa streymt til Evrópu.

Þessi tvö mál, þ.e. deila Rússlands og Úkraínu og NATO annars vegar og hins vegar flóttamannavandinn í Miðausturlöndum, hafa verið þau mál sem heita má að hafi yfirskyggt umræður á flestum ráðstefnum og þingum sem hafa verið haldin á vegum NATO-þingsins árið 2015. Auk þess voru önnur mál sem komu mikið til umræðu. NATO-þingið lætur sér fátt mannlegt óviðkomandi. Þar hafa verið miklar og góðar umræður um mannréttindi. Sömuleiðis var sá vandi sem tengist hlýnun jarðar, loftslagsmálin, tekinn föstum tökum á fundum. Minna hefur borið á því hin síðustu ár, þegar önnur mál hafa borið ægishjálm yfir annað, að menn hafi tekið upp umræður eins og við Íslendingar höfum margoft beitt okkur fyrir, um konur, frið og öryggi í anda ályktunar Sameinuðu þjóðanna nr. 1325. Það er í sjálfu sér dapurlegt en var eitt af því sem okkar ágæti formaður, hv. þm. Þórunn Egilsdóttir, vakti athygli á í einni af þeim ræðum sem hún flutti á þessum þingum. Þar benti hún meðal annars á mikilvægi þess að þjóðir eins og Ísland tækju upp þau mál þegar engir aðrir yrðu til þess. Það hefur Íslandsdeildin gert mjög rækilega í samræmi við utanríkisstefnu núverandi ríkisstjórnar, en ekki síður fyrri ríkisstjórnar.

Málefni norðurslóða hefur borið sérstaklega á góma. Á vegum þingsins var unnin sérstök skýrsla um þau. Íslenska deildin kom mjög skýrt á framfæri viðhorfum sínum sem leiddu í samstarfi við til dæmis þingmenn Noregs til viðamikilla breytinga á hinni upphaflegu gerð skýrslunnar. Hv. þm. Þórunn Egilsdóttir flutti þar sterka og efnisríka yfirlitsræðu um þann part af utanríkisstefnu Íslands sem lýtur að norðurslóðamálum og við bæði tókum virkan þátt í umræðum um þau mál.

Það hefur komið í minn hlut á þessum þingum að reifa viðhorf gagnvart deilu Rússlands við NATO vegna Úkraínu. Það er skemmst frá því að segja að í þeim efnum hefur ríkt mikill samhugur um hinar breiðu línur í röðum þeirra sem sótt hafa NATO-þingið. Menn hafa sýnt mjög mikla samstöðu í fyrsta lagi gagnvart því að mótmæla af eins mikilli hörku og hægt er yfirgangi Rússa gagnvart Úkraínu. Nú er það svo að mönnum sýnist sitt hvað um aðgerðir þeirra þar, en eitt er þó algjörlega klárt að hvað sem líður þeim viðhorfum um sögulegt tilkall Rússa til Krímskagans breytir það ekki hinu að Rússar brutu þar alþjóðalög að því marki að þeir fóru yfir landamærin. Það er skýlaust brot á alþjóðalögum og það skiptir máli að menn stappi niður fæti gagnvart slíku. Það skiptir ekki síður máli að það séu smáríki eins og Ísland sem taki þátt í því. Við höfum lýst þeirri afstöðu nokkuð skýrt. Þar hefur verið samhljómur á millum okkar og þeirrar stefnu sem ríkisstjórnin hefur fylgt í þeim efnum.

Í öðru lagi hafa orðið innan þingmannasamtaka NATO mjög athyglisverðar umræður um viðskiptaþvinganir, í fyrsta lagi þær viðskiptaþvinganir sem Vesturveldin, Evrópusambandið og Bandaríkin tóku upp í kjölfar átakanna í Úkraínu, og í öðru lagi viðbrögð og þær aðgerðir sem Rússar gripu síðan til og hv. þm. Sigríður Andersen sagði í framsögu fyrir annarri skýrslu sem varðar ÖSE-þingið að væri vart hægt að skilgreina öðruvísi en sem hefndarráðstafanir, sem hún upplýsti um að væru líka brot á alþjóðlegum lögum.

Það sem menn gagnrýndu einkum við þær aðgerðir sem Vesturveldin gripu til var tvennt. Í fyrsta lagi að ráðist var mjög skjótt í aðgerðir og málið hafði ekki verið skoðað mjög rækilega áður en til þeirra var gripið. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að það sé fyllilega verjanlegt að grípa til viðskiptaþvingana til þess að ná fram pólitískum stefnumiðum. En ég er líka þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé áður en gripið er til þeirra að menn viti nákvæmlega hvert markmið þeirra á að vera og við hvaða aðstæður markmiðunum telst fullnægt þannig að viðskiptaþvingununum sé þá aflétt. Hvoru tveggja þótti mörgum sem tóku til máls um þau mál á mörgum fundum NATO-þingsins nokkuð áfátt. Þetta er í reynd ekkert frábrugðið þeim umræðum sem hafa orðið mörgum sinnum, sérstaklega á fyrri hluta aðgerðanna, innan utanríkismálanefndar Alþingis.

Í öðru lagi voru lögð fram gögn sem þingið vann sjálft í krafti þeirrar sérfræðiþekkingar og sérfræðinga sem það hafði yfir að ráða um afleiðingar viðskiptaþvingananna. Maður sér því oft haldið fram í fjölmiðlum, ekki síst í hinum engilsaxneska heimi, að viðskiptaþvinganirnar hafi í reynd leitt til verulegra áhrifa á rússneskan efnahag. Við sjáum sérstaklega núna að menn eru að leiða fram gögn sem benda til þess að vissulega hafi orðið merkjanleg áhrif, en fram eftir aðgerðatímanum var nokkuð ljóst að áhrifin sem komu fram á efnahag Rússa mátti fyrst og fremst rekja til ákvarðana þeirra sem í Sádi-Arabíu ráða heimsmarkaðsverði á olíu. Það var mjög erfitt fyrir þá sem fóru höndum um þessi mál af hálfu þeirra þingmanna sem sátu NATO-þingið á síðasta ári að leggja fram beinlínis órækar sannanir fyrir því að aðgerðirnar hefðu haft áhrif.

Ég gagnrýndi það til dæmis á einum þremur fundum sem ég sótti að áhrifin væru ekki, að því er mér virtist miðað við þau gögn sem þá lágu fyrir, mjög mikil. Ég var þeirrar skoðunar að ef menn ætluðu sér á annað borð að beita viðskiptaþvingunum yrðu þeir að gera það af fullum krafti. Ég vísaði til að mynda til þeirra viðskiptaþvingana sem Vesturlönd og einkum Bandaríkin beittu Íran árum saman og báru lengi framan af tiltölulega lítinn ávöxt. Það var ekki fyrr en alþjóðasamfélagið beitti sér fyrir því að skrúfað var fyrir alþjóðlega peningamiðlun Írana, þ.e. miðlunarkerfinu sem skammstafað er SWIFT var lokað og skrúfað fyrir allar leiðir Írana til þess að geta miðlað peningum inn og út úr landinu, t.d. í gegnum indverska banka að viðlögðum miklum refsingum, sem þær aðferðir höfðu í för með sér einhverjar afleiðingar. Í tilviki Írana sáum við til hvers það leiddi að lokum. Það leiddi til þess að Íranar voru í krafti þeirra þvingana knúnir að samningaborðinu um kjarnorkuvæðingaráætlun sína. Það hefur góðu heilli leitt til niðurstöðu sem ég held að sé öllum til góða, Bandaríkjamönnum, Vesturlöndum, Írönum ekki síst og Miðausturlöndum, vegna þess að samkomulagið um kjarnorkuvæðinguna mun leiða til aukins hagvaxtar og stuðla að friði á því svæði.

Ég gekk hvað eftir annað eftir því hvað ylli því fyrst gögn NATO-þingsins bentu til þess að viðskiptaþvinganirnar hefðu ekki þær djúpu afleiðingar sem menn ætluðu heldur væru þær miklu fremur táknræns eðlis um samstöðu Vesturlanda að menn færu ekki sömu leið og gagnvart Íran og skrúfuðu líka fyrir peningamiðlunarkerfið sem kennt er við SWIFT. Svarið lá svo sem í augum uppi. Þrátt fyrir að við tölum stundum um Rússland sem einangrað ríki undir forustu Pútíns Rússlandsforseta er staðan þannig að Rússland er svo samþættað hinu alþjóðlega viðskiptakerfi að með því að ganga svo langt hefði það orðið eins og búmerang og komið aftan í hnakka þeirra sem þessu beittu.

Það má segja að þeim skilyrðum sem ég lýsti áðan og taldi að ættu jafnan að vera forsendur viðskiptaþvingana, um að skilgreint væri markmið og með hvaða hætti ætti í fyllingu tímans að aflétta viðskiptaþvingunum, hafi verið fullnægt með Minsk-samkomulaginu þar sem liggur fyrir skilgreining á því við hvaða aðstæður eigi að aflétta þvingununum. Við höfum svo nýlega séð fréttir um það, óljósar, sem benda til þess að menn gera ráð fyrir því að síðar á þessu ári kunni sú stund að renna upp að viðskiptaþvingunum verði aflétt.

Ég hef varið svo stórum hluta af ræðu minni í þetta vegna þess að viðskiptaþvinganirnar og afleiðingar þeirra reistu virkilega úfa í umræðu á Íslandi. Við sáum það reyndar gerast í mjög mörgum löndum þar sem samtök og samsteypur mótmæltu mjög harkalega vegna þess að þvinganirnar vörðuðu beina hagsmuni. Ég minnist þess að tvö ríki höfðu uppi sterkar kröfur um að fá bætur frá alþjóðasamfélaginu, þá fyrst og fremst Evrópusambandinu, til þess að bæta sér afleiðingar hins gagnkvæma viðskiptabanns þegar Rússar gripu til þess sín megin. Það var Finnland og Pólland en þessi ríki hafa annars vegar Finnar 1,3% og hins vegar Pólverjar 1,8% af útflutningsverðmæti vegna viðskipta við Rússland. Þetta var sá skaði sem þeir báru og það var kannski hvað mest fyrir utan náttúrlega Eystrasaltsríkin. Þá voru ein fimm eða sex ríki sem voru mjög óhress með þvingunaraðgerðirnar. Eitt þeirra, Grikkland, hótaði því bókstaflega að beita neitunarvaldi. Að lokum var það þó þannig að allir gengu í takt í þeim efnum.

Í lok ræðu minnar vil ég segja það að menn þurfa auðvitað alltaf að vega og meta með hvaða hætti þeir beita viðskiptaþvingunum. Þar þurfa menn vissulega að meta skammtímahagsmuni ríkjanna sjálfra á viðskiptasviðinu en mega hins vegar alls ekki gleyma því að meta langtímahagsmunina, hvaða máli það skiptir að taka þátt í aðgerðum af svona tagi og hvaða máli skiptir að gera það ekki. Ég tel að í þeirri stöðu sem Ísland var hafi verið mjög erfitt fyrir okkur að ætla að standa utan við þessar aðgerðir. Ég tel að til langs tíma litið, miðað við hagsmuni vopnlausrar smáþjóðar, skipti mjög miklu máli að stappa niður fæti þegar alþjóðalög eru brotin. Það breytir engu um það að það er mín persónulega skoðun að samráð við Alþingi um þetta mál hafi verið mjög í molum, sérstaklega á fyrri parti þessarar atburðarásar.