145. löggjafarþing — 70. fundur,  1. feb. 2016.

styrkur til kvikmyndar um flóttamenn.

[15:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og fyrir að gefa færi á að ræða þetta mál í þingsal. Það er rétt að ákveðið hefur verið að styrkja gerð heimildarmyndar, og ekki bara heimildarmyndar, heldur um leið gerð námsefnis sem nýst gæti ungum börnum eða börnum á skólaaldri varðandi flóttamenn og móttöku þeirra og allt það ferli sem þar er undir.

Það var mjög sérkennilegur fréttaflutningur af þessu máli á fréttastofu Ríkisútvarpsins, og vakti mig til umhugsunar þegar sérstaklega var tekið fram að sá sem sótti um þennan styrk sé fyrrverandi varaþingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi formaður Flóttamannaráðs. Hann var varaþingmaður síðast árið 2000 og það eru líklega 15–16 ár síðan hann var formaður Flóttamannaráðs. Það var líka talað við konu í þessum fréttatíma sem er formaður Bandalags íslenskra listamanna, ef ég man rétt, og stutt síðan sú ágæta kona var ráðherra Vinstri grænna, meðlimur í ríkisstjórn og líka þingmaður. Ekki sá Ríkisútvarpið ástæðu til að nefna það í þessari frétt. Ég tel það mjög undarlegt.

Peningarnir sem komu í þetta verkefni eru annars vegar hluti af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar, 3 millj. kr. koma þaðan, og síðan er sama upphæð fé sem er á þróunarsamvinnuliðnum hjá utanríkisráðuneytinu, sem við teljum að sé þarna mjög vel varið. Það er mjög mikilvægt að við nýtum tækifærið til að lýsa þeirri vegferð sem flóttamenn þurfa að fara í þegar við tökum á móti þeim og þegar þeir leggja í sína hættuför, að við sýnum aðstæðum þeirra og hvernig lífið gengur fyrir sig þegar þeir koma til Íslands. Það held ég að sé mjög gott og mikilvægt mál.

Frumkvæði að þessu góða verkefni hafði Skotta kvikmyndafélag, þ.e. Árni Gunnarsson hafði frumkvæði að þessu og leitaði til utanríkisráðuneytisins með hugmynd sína. Við ræddum hana í ráðuneytinu, m.a. við þróunarsamvinnuskrifstofuna, hvort þetta væri verðugt verkefni. (Forseti hringir.) Það voru allir sammála um að þetta væri mjög gott og verðugt verkefni til að lýsa þessum aðstæðum og sýna hvað bíður þessa góða fólks sem hingað er að koma til okkar.