145. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2016.

starfshópur um framtíðarskipan fæðingarorlofsmála.

426. mál
[16:50]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ætli það sé ekki viðeigandi að ég blandi mér aðeins í þessa umræðu sem fyrsti þingmaðurinn sem tók fæðingarorlof sem faðir og átti rétt á hálfum mánuði, það var nú allt og sumt.

Ég hef verulegar áhyggjur af því hver staða þessa máls er og því langa stoppi sem orðið hefur í uppbyggingu fæðingarorlofskerfisins aftur. Síðasta ríkisstjórn gekk frá áætlun til nokkurra ára í þeim efnum, um bæði hækkun á þökum og lengingu orlofsins, og skildi þannig við fæðingarorlofssjóð að hann var í góðum færum til að standa undir þeirri áætlun.

Núverandi ríkisstjórn lét það verða eitt af sínum fyrstu verkum að helminga tekjustofninn úr 1,2 prósentustigum af tryggingagjaldsstofni niður í 0,6. Nú er verið að ganga á eigið fé sjóðsins. Þrýstingurinn er á að lækka tryggingagjaldið í þágu atvinnulífstryggingagjaldshlutans þannig að pólitískt er staðan mjög erfið með tekjustofninn svona veikan.

Ég held að hæstv. félagsmálaráðherra verði að horfast í augu við það að okkur hefur ekki verið að miða áfram í þessum efnum, ef horft er til þessara þátta, heldur erum við á fullri ferð afturábak (Forseti hringir.) með mun veikari tekjustofn og Fæðingarorlofssjóð sem verið er að ganga á. Það er handleggur að snúa þessu við og ná þessu upp aftur.