145. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2016.

starfshópur um framtíðarskipan fæðingarorlofsmála.

426. mál
[16:51]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég hefði viljað fá skýrari svör frá hæstv. ráðherra. Það sem hér liggur fyrir er að starfshópurinn muni skila fljótlega. Það liggur líka fyrir að þær ákvarðanir sem hafa verið teknar hafa ekki verið til að styrkja stöðu sjóðsins.

Ég vitnaði hér í skattalækkunarstefnu ríkisstjórnarinnar. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi stöðu tekjustofna sjóðsins. Á sama tíma horfum við á að æ færri taka fæðingarorlof. Okkur miðar ekkert áfram í því að lengja orlofið og brúa það bil sem hæstv. ráðherra lýsti þó yfir hér að hún vildi brúa.

Staðreyndin er sú að það er mjög þungt fyrir fæti hjá ungu fólki sem eignast börn í því að brúa nákvæmlega þetta bil. Lenging orlofsins, fyrir lá áætlun um hana fyrir lok síðasta kjörtímabils, er lykilatriði í því að fólk geti haldið áfram að eignast börn og vera á vinnumarkaði. Ég tek líka undir að það er mikilvægt að horfa til þaksins. Það er spurning um pólitískt val hvernig við veljum að stýra samfélagi, hvort við teljum mikilvægt að afla tekna til að fjármagna velferðina eða hvort við teljum mikilvægara að lækka skatta sem núverandi ríkisstjórn hefur talið mikilvægara. Það er bara staðreynd máls.

Fljótlega, sagði hæstv. ráðherra. Mig langar að ítreka þá spurningu mína hvort hún eigi von á því, ef starfshópur skilar fljótlega, að við sjáum breytingar á þessu kjörtímabili; hvort hún eigi von á breytingum sem verði lagðar fram á þessu þingi eða hvort það verði þá á næsta þingi.