145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

embætti umboðsmanns aldraðra.

14. mál
[16:11]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Karli Garðarssyni fyrir að leggja fram þessa þingsályktunartillögu og vonast svo sannarlega til að hún nái fram að ganga. Auðvitað hefði maður óskað þess að hún og mörg önnur þingmannamál hefðu náð að komast fyrr á dagskrá.

Tillagan er góð og það er rétt hjá hv. þingmanni að kerfið er of flókið. Það er allt of erfitt fyrir marga að leita réttar síns. Það er líka rétt sem kom fram í ræðu hv. þingmanns að líklega verði margir aldraðir af rétti sínum, tapi jafnvel fjármunum eða missi af fjármunum sem þeir eiga eflaust rétt á vegna þess að lagaumhverfið er töluvert flókið.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Í sumum sveitarfélögum úti á landi hefur svokölluðum öldungaráðum farið fjölgandi eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar að ég held, þ.e. í sumum sveitarfélögum hefur þeim verið komið á fót þannig að aldraðir geta innan sveitarfélaganna komið upplýsingum sínum er varða sveitarfélögin á framfæri og eiga þar málsvara. Telur hv. þingmaður að það sé til bóta fyrir þennan hóp fólks? En eins og hann sagði í ræðu sinni telur hann að sá hópur fari ört stækkandi og sýnir fram á tölulegar upplýsingar um það. Telur hv. þingmaður að þessi öldungaráð séu til bóta?