145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

málefni barna.

[10:49]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Páli Val Björnssyni kærlega fyrir fyrirspurnina. Hv. þingmaður fór í gegnum forsögu ART-verkefnisins á Suðurlandi og lýsti þeirri ánægju sem hefur ríkt á svæðinu með verkefnið. Það var niðurstaða Alþingis að veita fé í verkefnið árið 2016 og ég hef falið Barnaverndarstofu að semja um og ráðstafa þeim fjármunum sem Alþingi setti í verkefnið.

Hvað varðar framtíðina tek ég undir með þingmanninum. Það er mikilvægt að við vöndum okkur og hugum vel að þeim verkefnum sem hafa gengið vel. Í síðustu viku átti ég fund með forsvarsmönnum Rannsóknarstofnunar í barna- og fjölskylduvernd og nefndi þar sérstaklega og óskaði eftir að við mundum fara í samstarfsverkefni við rannsóknarstofnunina þar sem við tækjum út ART-verkefnið og reynsluna af því, líka svokallað PMT-verkefni sem Barnaverndarstofa tók yfir sem áður hafði verið hjá Hafnarfjarðarbæ og MST-verkefni, þrjár skammstafanir sem ég nefni hér. Öll þessi verkefni hafa verið reynd og verið að mörgu leyti mikil ánægja með.

Þetta eru hins vegar verkefni sem hafa verið þróuð og rannsökuð erlendis og síðan innleidd hér. Ég held að það sé mjög mikilvægt að fara yfir reynsluna og horfa til þess að það er ekki alltaf hægt að yfirfæra aðferðafræði og nálganir beint yfir á íslenskar fjölskylduaðstæður og gagnvart íslenskum börnum. Þess vegna er svo mikilvægt að fá fagfólk eins og er starfandi innan Háskóla Íslands til að meta árangurinn af því þannig að Alþingi geti í framhaldinu tekið (Forseti hringir.) ákvörðun um framtíð þessara verkefna á grundvelli faglegra upplýsinga.