145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

237. mál
[18:29]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að biðjast forláts á því ef ég hef valdið þeim misskilningi að ég teldi leyndarhyggju valda þessu vandamáli. Svo tel ég alls ekki vera. Það sem ég ætlaði að fara inn á ræðu minni, og man ekki hvernig ég orðaði, er að stundum eru reglur ekki birtar. Reglugerðir eru að mér vitandi alltaf birtar en stundum eru reglur ekki birtar, eins og t.d. reglur um valdbeitingarheimildir og vopnaburður lögreglu, sem reyndar voru opnaðar nýlega, þökk sé hæstv. innanríkisráðherra Ólöfu Nordal. Leyndarhyggja og ekki leyndarhyggja, ég mundi ekkert endilega nota það orð vegna þess að menn telja sig hafa lögmætar ástæður fyrir því. Síðan er oft ágreiningur um það hvort þær séu til staðar og alls konar ferli til þess að úrskurða um það og einnig pólitískur vilji.

Ég tel ekki leyndarhyggju valda þessu vandamáli. Ég held að þetta sé vandamál sem hafi fengið að grassera í kerfi sem einbeitir sér að öðru, t.d. að skrifa reglugerðir. Ég skil það mætavel að fagaðilar verði ónæmir fyrir svona vandamálum, það er algerlega skiljanlegt og má búast við því í hvers konar kerfi. En þess þá heldur ætti að vekja athygli á því þegar eitthvað má betur fara.

Ég kann að meta ábendingu hv. þingmanns í sambandi við reglugerd.is. Það er reyndar sá vefur sem ég nota. Ég þekki ég ekki hvernig tæknilega er farið að því hjá fólkinu á gólfinu að setja þetta inn á hvaða vef o.s.frv., en ef það er eitthvað sem á heima í þessum lögum er alveg sjálfsagt að bæta því við.

Hvað varðar lagasafnið þekki ég ekki ástæður þess að það skuli vera uppfært tvisvar, þrisvar á ári eða hvað það er, en það er eitthvað sem er alveg þess virði að skoða. Í seinna andsvari vík ég kannski að öðru máli sem ég hef mælt fyrir sem varðar að gera þingskjöl tölvutæk til að útrýma þannig vandamálum og reyndar búa til fleiri kosti til þess að uppfræða borgarana um það sem er í gangi hér á bæ.