145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2014.

417. mál
[12:12]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það að það sem þingið gerir og á að gera fremur er að tala um markmið og tala um áherslur sínar sem snúa að markmiðum, hvort sem það eru upplýsingar eða frumkvæði o.s.frv. En tillögur okkar og áherslur sem töluðum fyrir auknu framlagi til umboðsmanns Alþingis byggðu á ábendingum frá embættinu sjálfu. Auðvitað er það síðan okkar að vega það og meta hvað við viljum gera með slíkt. Það var einróma niðurstaða nefndarinnar og hefur verið um langt skeið, eins og hv. þingmaður þekkir mjög vel sem fyrrverandi formaður þessarar nefndar, að áherslan hefur verið á að gera embættinu kleift að sinna frumkvæðismálum í ríkari mæli en það hefur gert og getað gert. Til þess þarf mannskap, það þarf einstakling eða einstaklinga sem sinna því verkefni sérstaklega. Það höfum við heyrt frá embætti umboðsmanns.