145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

undirbúningur að gerð þjóðhagsáætlana til langs tíma.

114. mál
[15:21]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að mæla fyrir tillögu til þingsályktunar um undirbúning að gerð þjóðhagsáætlana til langs tíma. Þingsályktunartillagan er endurflutt og að henni standa ásamt mér hv. þingmenn Guðmundur Steingrímsson, Helgi Hrafn Gunnarsson og Oddný G. Harðardóttir.

Tillagan var flutt á síðasta þingi, 144. löggjafarþingi, og gekk þá til efnahags- og viðskiptanefndar. Nefndin sendi málið til umsagnar og bárust nokkur svör sem almennt voru mjög jákvæð og mæltu nokkrir aðilar sterklega með samþykkt tillögunnar. En þarna var komið fram undir lokadaga þingsins og ekki vannst tími til að útkljá málið og því hef ég valið þann kost að endurflytja tillöguna að mestu leyti með óbreyttri greinargerð. Þó hafa nokkrar tölulegar upplýsingar og tilvísun til annarra þingmála verið uppfærðar í samræmi við stöðuna í þeim efnum á yfirstandandi þingi.

Tillagan gerir ráð fyrir því eins og fram kemur í tillögugrein að fela forsætisráðherra, fyrir hönd framkvæmdarvaldsins, að hefja undirbúning að gerð þjóðhagsáætlana til langs tíma. Í því skyni verði í fyrsta lagi þróuð, eða eftir atvikum aðlöguð að íslenskum aðstæðum, hagfræðilíkön og spálíkön og önnur undirstöðugögn sem geri kleift að vinna betri langtímaspár og horfa fram í tímann hvað varðar líklega þjóðhagsframvindu til nokkurra áratugi og svo jafnvel í einhverjum mæli út þessa öld. Í því sambandi verði hugað sérstaklega að mikilvægum efnahagslegum þáttum í fjármálakerfinu eins og þróun lífeyrisskuldbindinga og ávöxtun eignasafns lífeyrissjóðakerfisins sem eru mjög stórar breytur í okkar hagkerfi og þjóðarbúskap.

Þá verði greindir mikilvægustu áhrifavaldar líklegrar og/eða mögulegrar þjóðhagsframvindu á Íslandi næstu tvo til þrjá áratugi og út öldina. Sérstaklega verði horft til líklegrar eða mögulegrar þróunar félagslegra, umhverfislegra og lýðfræðilegra þátta sem allt eru mikilvægar breytur og forsendur slíkrar langtímaáætlanagerðar. Glímt verði við að greina sérstaklega styrkleika og veikleika Íslands með tilliti til náttúru og umhverfisaðstæðna, auðlinda, landfræðilegrar legu, landrýmis, fólksfjölda, mannauðs og annarra efnislegra og óefnislegra þátta sem áhrif kunna að hafa við slíka langtímaáætlanagerð. Einnig verði glímt við að setja fram dæmi um mögulega kynslóðareikninga en þeir fela í sér að gerð er tilraun til að bera saman hlutskipti kynslóðanna, núlifandi kynslóðar og þeirra sem byggja munu landið að einhverjum áratugum liðnum og jafnvel heilli öld síðar. Að lokum þarf að skoða hvernig verkefninu verði best fyrir komið og hverjum skuli fela að annast gerð, birtingu og reglubundna endurskoðun slíkra þjóðhagsáætlana til langs tíma.

Tillagan gerir ráð fyrir að forsætisráðherra skipi verkefnisstjórn til að undirbúa verkefnið og kalli á þann vettvang fulltrúa frá mennta- og vísindasamfélaginu, vinnumarkaðnum, sveitarfélögum, almannasamtökum auk sérfræðinga frá ráðuneytum og stofnunum eftir atvikum. Síðan mundi forsætisráðherra í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra leggja fyrir Alþingi innan árs frá samþykkt tillögunnar, sem ætti að vera nægjanlegur tími, tímasetta og útfærða verkáætlun ásamt kostnaðarmati til endanlegrar samþykktar á Alþingi. Málið færi þannig í undirbúningsfarveg á þessu stigi, yrði Alþingi svo vinsamlegt að fallast á tillöguna, og kæmi síðan aftur til endanlegrar ákvörðunar á Alþingi þegar fyrir lægi verkáætlun og mat á kostnaði.

Ástæða er til að fara nokkrum rökum um forsendur þess að við tillögumenn teljum mikilvægt að vinna svona starf á Íslandi. Það er lítill vafi á því að forsendur þjóðhagsáætlana til langs tíma og haldbær gögn sem tekin eru saman til að undirbyggja þær geta verið afar gagnlegar og haft þýðingu fyrir hagstjórn og ýmsa ákvarðanatöku og stefnumótun í samfélaginu. Með því er reynt á samræmdan og yfirgripsmikinn hátt að afla vitneskju um hluti eins og auðlindaforða samfélagsins og eignir í efnislegum og óefnislegum gæðum og greind eru sóknarfæri og ógnanir eftir því sem mögulegt er. Þannig má segja að slíkar þjóðhagsáætlanir feli í sér bæði tilraun til stöðumats og viðleitni til að segja fyrir um líklega eða mögulega þróun og eftir atvikum móta viðbrögð við henni eða hafa áhrif á hana eftir því sem unnt er.

Auðvitað breytast aðstæður og svona ferli þarf að vera dýnamískt og sílifandi. Það þarf að takast á við að ófyrirsjáanlegir atburðir gerast. Áföll dynja yfir, ýmist af manna völdum eða náttúrunnar. Það er enginn að halda því fram að hægt sé að meitla slíka þjóðhagsáætlun til langs tíma í stein og hún muni síðan standast um ókomin ár, að sjálfsögðu ekki. En við höldum því fram að glíman við það að setja slíka áætlun saman og uppfæra hana með reglubundnum hætti sé gagnleg og holl og veiti mönnum visst aðhald um leið, sem m.a. er fólgið í því að reyna að greina alla þá þætti sem hafa áhrif.

Í öðru lagi er fjallað um það í greinargerð og enginn dulur skal dreginn á það að nálgunin er líka ákveðin viðleitni til þess að vinna gegn skammtímahugsun, hvatvísi og ábyrgðarleysi innan gæsalappa eða jafnvel án gæsalappa í stjórnmálum. Það hlýtur að vera þannig að einhver framtíðarsýn af þessu tagi — kortlagning á því hvar við stöndum og hvert við stefnum og hvar við gætum orðið stödd eftir 10–20 ár, hvar viðfangsefnin eru sem þarf að takast á við og kunna að kalla á efnislegan atbeina, kunna að kalla á að til þeirra sé varið fjármunum á samfélagslegum forsendum — skiptir máli þegar menn taka síðan ákvarðanir frá degi til dags í samtímanum.

Við getum tekið sem dæmi mikilvægi þess að byggja á sem bestum grunni um stöðu og verðmæti auðlinda og forsendur auðlindanýtingar til að vinna gegn óskynsamlegum skammtímafreistnivanda varðandi ráðstöfun þjóðarauðsins, að menn seilist ekki í tekjur og verðmæti sem með réttu eiga að tilheyra framtíðinni í því skyni að kaupa sér tímabundnar vinsældir í núinu. Þetta er í raun eitt af undirstöðulögmálum sjálfbærrar þróunar og sjálfbærrar framvindu í samfélaginu og þjóðarbúskapnum.

Við þurfum einnig greinargóðar upplýsingar um tekjudreifingu og hvert stefnir í þeim efnum. Hvernig er tekjusamsetning einstakra hópa að þróast? Hvernig er auðsöfnun að þróast? Er auðurinn að færast á fárra hendur? Er hann að þjappast saman? Allt eru þetta hlutir sem hljóta að skipta máli þegar við veltum fyrir okkur hvernig vinna megi gegn efnislegri misskiptingu eða efnalegri misskiptingu og þeim samfélagsmeinum sem slíkt veldur.

Svona þjóðhagsáætlun getur verið afar gagnleg fyrir fleiri aðila en stjórnmálamenn og þá sem glíma við hagstjórn og efnahagsmál. Fyrirtæki, stofnanir og samtök sem vilja horfa langt fram í tímann geta haft mikinn styrk af því að sjá hvernig stjórnvöld meta þróunina og sjá hvernig menn kortleggja framhaldið upp á sína eigin stefnumótun og eigin áætlanagerð, eigin ákvarðanatöku.

Þetta kemur að sjálfsögðu inn á það sem er nokkuð óumdeilt að staða sérhverrar kynslóðar og skilyrði hennar markast af verkum þeirra sem á undan komu, af verkum fyrri kynslóða. Hún nýtur góðs af góðum og uppbyggilegum verkum þeirra en glímir við afleiðingar mistaka þeirra og afglapa ef einhver eru. Sérhverri kynslóð ber að sjá sjálfri sér farborða með þeim hætti að það rýri ekki eða spilli tækifærum þeirra sem á eftir koma. Það er afar mikilvægt að menn hafi þetta í huga til þess að sambúð kynslóðanna og yfirfærslan geti tekist með sem átakaminnstum hætti. Við viljum ekki tilheyra einhverri sérgæskukynslóð sem fær þau eftirmæli í sögunni að hún hafi hegðað sér óábyrgt og kastað vandanum inn í framtíðina og skilið eftir handa öðrum til að takast á við hann auk þess sem slíkt er ekki siðferðilega réttlætanlegt. Aftur kemur maður þá að grundvallarhugsuninni um sjálfbæra þróun og sjálfbæra framvindu og lífshætti sem tryggja framtíðina en ógna henni ekki. Það er ekki hægt að mæla því í móti að greinargóðar og vandlega unnar þjóðhagsáætlanir til langs tíma, viðleitni til að setja upp einhvers konar kynslóðareikninga og hafa þá til hliðsjónar, eru allt mikilvægar breytur í þessu sambandi.

Að sjálfsögðu hefur áður verið hugað að slíkum verkefnum og ekki er verið að halda því fram í tillögunni að ekkert hafi verið gert í þeim efnum. Þar má benda á núorðið ákvæði í lögum um opinber fjármál þar sem gert er ráð fyrir því að ráðherra leggi skýrslu fyrir Alþingi á þriggja ára fresti um ýmsa þætti sem varða miklu um hagræna þróun til næstu ára litið og einhverju leyti lengra inn í framtíðina. En að sjálfsögðu verður marktækara og greinarbetra að hafa um þetta sjálfstæða og unna langtímaáætlun.

Hagstofan uppfærir auðvitað ýmsar spár. Við getum tekið sem dæmi spá um líklega þróun íbúafjölda á Íslandi næstu áratugina. Margs konar áætlanagerð á sviði samgöngumála og orkumála byggist á gefnum forsendum, orkuspám, umferðarspám og svo framvegis. Í heilbrigðisáætlun er reynt að meta þjónustuþörfina samfara fjölgun aldraðra og þannig mætti áfram telja. En flestar eiga slíkar áætlanir það sammerkt að þær horfa aðeins nokkur ár fram í tímann, í mesta lagi kannski rúman áratug, og þær falla hvergi saman í eina þjóðhagslega heild, eina langtímaþjóðhagsáætlun eða þjóðhagsspá sem væri þar með miklu meira grunngagn en að reyna að fletta upp sjálfstæðum áætlunum á hverju málasviði fyrir sig og lesa það saman.

Í efnahagslegu tilliti er þetta mjög nærtækt okkur Íslendingum og ætti ekki að þurfa að færa mikil rök fyrir því í ljósi biturrar reynslu okkar frá árinu 2008 og árunum sem á eftir fylgdu hversu mikilvægt það er að hafa langtímahugsun og varúðarsjónarmið og ábyrgð og sjálfbærni í huga við ákvörðunartöku um efnahagsmál, ríkisfjármál og hagstjórn.

Við getum tekið sem dæmi stöðu okkar í núinu, á þessum árum eftir hrunið. Núorðið er tiltölulega óumdeilt að víða er aðkallandi þörf á endurnýjun og fjárfestingum í innviðum samfélagsins sem menn urðu af skiljanlegum ástæðum að spara dálítið við sig á mestu erfiðleikaárunum. Það vita allir um ástand vegakerfisins, þörfina fyrir að byggja nýjan Landspítala, þörfina á fjárfestingum í hjúkrunarheimilum eða -rýmum og í umönnun aldraðra. Þannig má segja að við höfum að einhverju leyti tekið að láni frá framtíðinni að byggja þá innviði upp og fjárfesta í þeim en það munum við að sjálfsögðu ekki geta um aldur og ævi.

Þá er komið að því sem einmitt á heima í langtímahugsun og langtímaáætlunargerð af þessu tagi, að horfast í augu við þann veruleika, kortleggja hann, gera áætlanir um hvernig þessum þörfum verður mætt, á hvaða árabili, með hvaða fjármunum og svo framvegis.

Allir tala mikið um breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar. Efnahagsleg stærð lífeyrissjóðanna sem eiga nú um 150% af vergri landsframleiðslu í ávöxtun til að greiða lífeyri er auðvitað gríðarstór og afgerandi fyrir þessa þjóð. Einnig má nefna skattalega meðferð lífeyrisgreiðslna og framtíðartekjur ríkis og sveitarfélaga í ósköttuðum lífeyrissjóðum sem gefa tekjur þegar kemur að útgreiðslum. Allt eru þetta breytur sem munu marka verulega hin þjóðhagslegu og efnahagslegu skilyrði á komandi árum og áratugum. Þetta teljum við skynsamlegt að sé kortlagt og metið og sett upp í einhverja áætlun.

Af fyrri viðleitni til slíkra hluta er vitnað aðeins í greinargerðinni í hið merka starf sem unnið var undir forustu þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Steingríms Hermannssonar, en hann setti af stað gagnmerkt starf á vorinu 1984 undir heitinu Ísland næsta aldarfjórðunginn. Þar var glímt að mörgu leyti við hliðstæða hluti og lagðir eru til í tillögu þessari. Það má einnig nefna úttekt fyrirtækisins McKinsey & Company á íslensku efnahagslífi, skýrslur Efnahags- og framfarastofnunar og fleira sem að sjálfsögðu geta verið ágætisstuðningsgögn í þessum efnum en leysa ekki þörf okkar sjálfra fyrir að gera þetta, leggja sjálfstætt mat á þetta á okkar eigin forsendum og til nota fyrir okkur sjálf.

Vonandi geta allir orðið ásáttir um að hér sé lagður til vandaður og vel undirbúinn farvegur fyrir vinnu að þessu máli sem tekinn yrði í skrefum eins og tillagan gerir ráð fyrir. Í raun og veru á ég erfitt með að sjá að menn geti lagst gegn tillögu þessari með miklum rökum öðrum en þeim að þeir sjái enga ástæðu til vinnu af þessu tagi, þeir telji bara enga þörf fyrir hana. Ef einhver er í boði til að halda því sjónarmiði fram þá hef ég auðvitað áhuga á að eiga orðastað við hann.

Herra forseti. (Forseti hringir.) Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.