145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

vinnuheimilið að Kleppjárnsreykjum o.fl.

248. mál
[15:50]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra um vinnuheimilið að Kleppjárnsreykjum. Það komst talsvert í opinbera umræðu síðastliðið haust sem tengdist heimildarmynd sem gerð var um þetta heimili þar sem ungar stúlkur voru vistaðar sem taldar voru hafa verið í svokölluðu ástandi, eins og það hefur verið nefnt í sögubókunum, þ.e. voru taldar hafa sýnt af sér ósiðlegt athæfi í tengslum við breska og síðar bandaríska hermenn.

Ég gerði það mál hér að umtalsefni þegar þessi mynd var sýnd, taldi rétt að Alþingi tæki þetta kannski upp því að auðvitað höfum við fordæmi fyrir því að Alþingi hefur tekið til skoðunar mál fortíðarinnar þegar um er að ræða aðgerðir stjórnvalda sem hafa bitnað á óbreyttum borgurum þessa lands. Þannig var það í þessu tilfelli. Á það hefur verið bent af fjöldamörgum sagnfræðingum sem hafa kynnt sér málið, annars vegar sjálft vinnuheimilið að Kleppjárnsreykjum og hins vegar almenna framgöngu stjórnvalda þar sem ungar konur voru teknar til yfirheyrslu um sín persónulegu mál, sín persónulegu samskipti við karlmenn, þá sérstaklega hermenn eins og ég nefndi áðan. Mörgum kann að virðast málið skringilegt í heimi dagsins í dag en ég get upplýst að ég fékk gríðarleg viðbrögð við að taka þetta mál upp, ekki síst frá konum og aðstandendum þeirra kvenna sem þarna voru undir.

Þarna er enn sár á þjóðarsálinni sem kannski hefur ekki verið grætt með sama hætti og ýmis önnur sár. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort til greina komi að vistheimilanefnd taki til skoðunar mál þessa heimilis og hvort það komi til greina að forsætisráðuneytið sem hefur haft forgöngu um aðrar slíkar rannsóknir rannsaki framgöngu stjórnvalda gagnvart stúlkum sem áttu samskipti við hermenn á hernámsárunum hvað varðar njósnir, yfirheyrslur og meðferð. Það liggja fyrir veruleg gögn um að barnungar konur hafi til dæmis verið kallaðar inn til yfirheyrslu vegna samskipta sinna við hermenn. Konur komnar á fimmtugsaldur, eins og sú sem hér stendur, hafa líka verið kallaðar til yfirheyrslu vegna samskipta sinna og ekki þótt hafa frelsi til þess að eiga samskipti við hvern sem er.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann telji koma til greina að stjórnvöld beiti sér í þessu máli, að það verði skoðað og rannsakað þannig að við getum lært af þessari sögu.