145. löggjafarþing — 82. fundur,  1. mars 2016.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Stjórnarþingmenn hafa reynt að verja fjársvelti til heilbrigðiskerfisins og einkavæðingaráform sem uppi eru. Hv. þm. Elín Hirst hefur komið fram í fjölmiðlum og talað um að Landspítalinn líti verr út að innan en spítali á Indlandi sem hún heimsótti í nóvember sl. Haft er eftir hv. þingmanni að hún hafi talið að ríkisstjórnin væri að gera nóg í heilbrigðismálum en sé komin að annarri niðurstöðu.

Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns gagnvart því hvort hún telji að menn hafi dregið lappirnar í að sækja fjármuni þangað sem fjármunir eru, þ.e. með skattlagningu. Menn eru búnir að afsala sér auðlegðarskatti, orkuskatti, tekjum af veiðigjöldum o.s.frv. Ég spyr hvort hún telji að þar hafi menn gert mistök.

Hv. þingmaður segir meðal annars að nást þurfi samstaða um hvar eigi að taka peninga í heilbrigðismál. Telur hv. þingmaður ekki að það séu skýr skilaboð þegar yfir 82 þúsund Íslendingar hafa skrifað upp á það að þeir vilji setja meira fjármagn í heilbrigðiskerfið? Eru menn þá ekki að tala um að það eigi að koma frá skattfé almennings og þaðan sem peningarnir eru fyrir; að þeir sem hafa meiri fjármuni borgi eftir getu?

Enn fremur nefnir hv. þingmaður að hægt sé að forgangsraða, til dæmis hægt að fresta jarðgangagerð og hægt að fresta kaupum á nýjum Herjólfi. Telur hv. þingmaður virkilega að Vestfirðingar og Vestmannaeyingar eigi að gjalda getuleysis núverandi stjórnvalda í heilbrigðismálum, að fjármagna heilbrigðiskerfið ekki sem skyldi, að það eigi að bitna á samgöngubótum eins og á Vestfjörðum þar sem menn hafa beðið um áratugaskeið eftir betri samgöngum, (Forseti hringir.) og í Vestmannaeyjum líka, sem eru nota bene ekki bara samgöngubætur til að komast á milli staða heldur öryggisatriði í heilbrigðismálum?


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna