145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

fullnusta refsinga.

332. mál
[15:33]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Frumvarpið sem hér liggur fyrir og við erum að ganga til atkvæða um felur í sér ýmsar úrbætur varðandi fullnustu refsinga og þann viðkvæma málaflokk í heild sinni. Hins vegar er alvarlegur skortur á metnaðarfullri stefnumótun og langtímasýn í þessum málaflokki, sérstaklega skortir áherslu á betrun í frumvarpinu. Við teljum að þetta séu lög sniðin fyrir fjárvana kerfi og það er auðvitað verulegur ágalli á frumvarpinu. En hér horfir ýmislegt til bóta, virðulegi forseti, þar af leiðandi munum við í Samfylkingunni greiða flestum breytingartillögum meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar jáyrði okkar í atkvæðagreiðslunni hér á eftir með örfáum undantekningum, því hugsunin er auðvitað sú að geta stigið skref til góðs þó að þetta sé ekki frumvarp sem við hefðum trúlega samið.