145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Hönnunarmars er farinn af stað enn á ný með glæsilegri dagskrá. Í Hönnunarmars stíga hönnuðir og listamenn fram og sýna afrakstur vinnu sinnar og deila með okkur framtíðarsýn sinni. Hönnun og skapandi greinar skipta höfuðmáli fyrir framþróun á íslensku atvinnulífi og í þessum sal er mikið talað um að auka fjölbreytni í atvinnulífinu. Allt of oft kemur þó í ljós að þeir sem þannig tala hafa bara í huga fleiri virkjanir og stærri álver. Þeir hinir sömu hafa haft lítinn skilning á því hvað skapandi greinar eru og virðast líta á þær sem einhvers konar föndur sem er ágætt svona með.

Það er óskiljanlegt af hverju ekki hefur verið lögð meiri áhersla á að efla skapandi greinar hér á landi. Ótal greiningar liggja fyrir um það hversu góð fjárfesting það yrði fyrir þjóðfélagið að leggja til dæmis fé í samkeppnissjóði skapandi greina og efla alla umgjörð skapandi greina. Þjóðfélag eins og Svíþjóð er gott dæmi um það hvernig markviss stefna í þessum efnum hefur skilað miklum auði til samfélagsins og drifið hagvöxt.

Björt framtíð hafði frumkvæði að því á síðasta kjörtímabili að koma í gegn fjárfestingarstefnu hér í þinginu þar sem verulega var aukið á framlög til skapandi greina. Það sýnir hug ríkisstjórnarinnar, þessara gamaldags stóriðjuflokka, til skapandi greina að eitt það fyrsta sem ríkisstjórnin gerði var að blása þessa áætlun af án nokkurra raka. Enn er hjakkað í sama farinu. Það stendur til að samþykkja hér í þinginu algjörlega innihaldslausa stefnu í nýfjárfestingum frá hæstv. iðnaðarráðherra þar sem gamla áherslan á orkufrekan iðnað skín í gegn. Það sem verra er, það er ekki minnst orði á skapandi greinar. Í þessum efnum, virðulegi forseti, skiptir máli hverjir stjórna.

Björt framtíð sendir baráttukveðjur til fólks í skapandi greinum og óskar landsmönnum öllum til hamingju með Hönnunarmars.


Efnisorð er vísa í ræðuna