145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

arðgreiðsluáform tryggingafélaganna.

[15:18]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um að það framferði tryggingafélaganna sem við höfum fylgst með í þessari viku er ámælisvert. Það að breyta svona skarpt um stefnu þegar kemur að því hvernig þau ætla að greiða sér út arð vekur mann til umhugsunar. Það vekur líka áhyggjur, a.m.k. hjá mér, hversu samstiga tryggingafélögin eru í því að hækka iðgjöld með því að taka út svona mikinn arð. Það vekur til dæmis athygli hvernig hluthafar í tryggingafélögunum eru. Þar eru krosseignatengsl töluverð. Um 25–30% af hlutafélögum í tryggingafélögunum eru í eigu sex félaga í hverju tryggingafélagi fyrir sig. Það ýtir undir óheppilega stöðu á tryggingamarkaðnum þegar sömu eigendurnir eiga 25–30% í hverju félagi fyrir sig. Þá fer maður að velta fyrir sér hvort hérna sé um að ræða þögult samráð. Og hvað er þá til bragðs að taka? Er ekki kominn tími til að gera úttekt á þessum tryggingamarkaði?

Stundum þarf maður að velja á milli þess sem er rétt og þess sem er auðvelt. Ég held að það sé auðvelt að vera meðvirkur með framferði þessara tryggingafélaga. Hins vegar brýtur það réttlætiskennd mína um samfélagslega ábyrgð sem tryggingafélög eiga að standa fyrir. Ég vona að hæstv. ráðherra sé sammála mér um að þetta sé ekki eðlilegt framferði og ég hvet hann eindregið til þess að láta gera úttekt á því hvernig markaðsstaða tryggingafélaganna er, hvort þarna sé um einhvers konar samráð að ræða, hvort heldur þögult eða með ráðum.