145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

raforkumál á Vestfjörðum og Hvalárvirkjun.

564. mál
[16:03]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mjög gott að þessi umræða er komin inn í þingið. Ég fagna því að við skulum vera að ræða þetta hér í dag. Umræðan er, eins og hér hefur komið fram, mjög mikilvæg í samhengi við raforkuhagsmuni Vestfirðinga sem hafa vægast sagt búið við afar mikið óöryggi í þeim efnum um áratugaskeið. Mikilvægasta hagsmunamálið í því sambandi er að sjálfsögðu hringtengingin sem skiptir mestu varðandi raforkuöryggið.

Menn tala um að hér geti orðið bylting í þeim málum og að tengivirkið í Ísafjarðardjúpi sé þá lykilatriði. Við hljótum að standa saman um að reyna að tryggja að það tengivirki verði niðurstaðan, enda bendir allt til þess að það muni lækka mjög tengikostnað vegna Hvalárvirkjunar.

Þetta er flókið mál, segir hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra. Við skulum líka átta okkur á því að það er ekki fullkomlega í hendi að þetta verði niðurstaðan með hringtenginguna (Forseti hringir.) og að raforkan flæði um Vestfirði. Þess vegna brýni ég menn í því að okkar hlutverk núna er auðvitað að tryggja að sú verði niðurstaðan en ekki að við stöndum hér í (Forseti hringir.) stuðningi við mál sem leiði ekki til niðurstöðu fyrir svæðið.