145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

framhaldsskóladeild á Vopnafirði.

548. mál
[17:36]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að við getum öll verið mjög ánægð og sátt við það að þetta fyrirkomulag er komið, þ.e. að þetta tilraunaverkefni hefur verið samþykkt, og þá er bara að sjá hvernig fram vindur. Ég vil þó segja hér eitt, það er nauðsynlegt að hafa í huga að það er gott og skiptir máli að geta boðið upp á þjónustuna, það verður líka að hafa það þannig fyrir krakkana sem hér um ræðir að þau upplifi það ekki þannig að það sé of mikil pressa á þau að vera kyrr. Sumum krökkum hentar að fara annað, sumum krökkum getur hentað að hleypa einmitt heimdraganum og fara í nám annars staðar. Það kann að vera og það má ekki setja of mikla pressu á þau, en það er nauðsynlegt að þessi valkostur sé til staðar þannig að krakkarnir geti líka valið að vera áfram hjá foreldrum sínum og stunda nám á þessu námsstigi í því öryggi sem felst í því að búa hjá foreldrum sínum. Hvort tveggja þarf að vera til staðar, bæði möguleikinn á að sækja nám annað og líka að stunda nám heima. Mér finnst þurfa að taka þetta fram.

Ég vona að það gangi vel með þetta verkefni. Ég held að það skipti verulega miklu máli. Við höfum séð að svona verkefni telja þar sem við höfum farið af stað með þau. Það eru nokkur svona verkefni í gangi annars staðar á landinu þar sem eru litlar deildir. Þau tækifæri sem felast í nýrri fjarskiptatækni og bættum samskiptum á auðvitað að nýta til þess að geta gert þetta. Það á að nýta þau sóknarfæri sem við fáum með þessum hætti. Við vorum auðvitað að hugsa þetta í ráðuneytinu á árinu 2014 þegar við vorum að ræða um að boðið yrði upp á þetta á Vopnafirði, ekki á Egilsstöðum heldur yrði bakhjarlinn skólinn á Egilsstöðum og Verkmenntaskóli Austurlands. Hugsunin var að boðið yrði upp á þetta nám á Vopnafirði. Það er það sem þetta gengur allt út á. Nú höfum við tveggja ára tilraunaverkefni og við sjáum síðan hvernig því mun vinda fram.