145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

eftirlit með starfsemi hjúkrunarheimila.

566. mál
[17:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra varðandi gæðaeftirlit með hjúkrunarheimilum á Íslandi.

Fyrirspurnin er í þremur liðum:

1. Hvernig er háttað eftirliti með þjónustugæðum hjúkrunarheimila í landinu?

2. Hvaða verkferlar eru viðhafðir varðandi gæðaeftirlit og inngrip eftirlitsaðila þegar grunur vaknar eða vísbendingar koma fram um vanrækslu eða illa meðferð á öldruðum?

3. Eru dæmi þess á síðustu árum að úttektir á starfsemi hjúkrunarheimila hafi leitt til inngripa af hálfu hins opinbera, t.d. landlæknisembættisins eða ráðuneytisins?

Tilefni þessarar þríþættu fyrirspurnar er margþætt. Fjárhagsleg staða hjúkrunarheimila í landinu er víða svo slæm að þeir sem til þekkja hafa talað um neyðarástand. Það á meðal annars við um Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu sem héldu nýlega neyðarfundi um stöðuna.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá síðasta ári má sjá að þá þegar vantaði milljarð frá ríkinu til þess að endar næðu saman í rekstri hjúkrunarheimilanna og hefur staðan haldið áfram að versna. Talað er um að nú vanti sárlega um 1,5 milljarða á ári inn í málaflokkinn.

Í úttektum landlæknisembættisins á starfsemi heilbrigðisstofnana undanfarin ár hafa komið fram upplýsingar um vandkvæði tengd gæðamálum og mönnun fagfólks hjúkrunarheimila. Það er líka áhyggjuefni að þessum úttektum landlæknis á starfsemi hjúkrunarheimilanna hefur farið mjög fækkandi síðustu ár. Þær voru 16 árið 2012 en voru til dæmis bara ein árið 2014 og þrjár á síðasta ári.

Þá hafa komið fram í fjölmiðlum og víðar í opinberri umræðu mjög alvarlegar vísbendingar um versnandi þjónustu og jafnvel illan aðbúnað aldraðra á vissum hjúkrunarheimilum og virðist það vera bundið við höfuðborgarsvæðið.

Ég vil ekki halda því fram að almennt og yfirleitt sé illa hugsað um gamalt fólk á hjúkrunarheimilum landsins. Það er best að taka það skýrt fram. En þær vísbendingar sem fram hafa komið vekja engu að síður áhyggjur og eru auk þess þess eðlis að ekki verður fram hjá þeim litið.

Það er sú staða sem ég vil nú ræða við hæstv. heilbrigðisráðherra og inna hann eftir því hvernig eftirlitinu sé í reynd háttað með starfseminni. Við vitum að landlæknisembættið gerir tilfallandi úttektir. En hvernig er viðbrögðum við ábendingum embættisins háttað, til dæmis þegar bent er á vandkvæði við faglega mönnun, fjárskort og annað slíkt?