145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

svar við fyrirspurn.

[14:21]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að harma að menn bregðist hér við með bræðiskasti þegar embættisfærslur þeirra eru gagnrýndar. En ég kem hér upp, herra forseti, til að árétta að hæstv. forseti gæti þess að fyrirspurnum þingmanna til hæstv. ráðherra sé svarað. Þegar við leggjum fram ákveðnar fyrirspurnir á að sjálfsögðu að svara þeim en ekki leggja fram efni þar sem lesa má fram svarið með greiningu á efni þess. Tilgangur fyrirspurnanna er að þar sé beinum spurningum svarað. Síðan er það til fyrirmyndar þegar hæstv. ráðherrar birta bréf — þetta voru reyndar opinber bréf þannig að hv. þm. Kristján L. Möller gat nálgast og var búinn að nálgast þau með öðrum hætti — og skýrslur. Það er sjálfsagt mál. (Forseti hringir.) Ég árétta, hæstv. forseti: Viltu gæta hagsmuna okkar þingmanna hér þannig að hæstv. ráðherrar komist ekki hjá því að svara spurningum okkar.