145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

aðkoma forsætisráðherra að samningum um slitabú föllnu bankanna.

[11:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég hef ekki upplýsingar af þeim toga sem hv. þingmaður spyr um við höndina. Ég get ekki fullyrt neitt um stöðu einstakra ráðherra. Ég verð reyndar að segja að mér finnst hv. þingmaður blanda aðeins saman tveimur óskyldum hlutum, sem er að einhver kunni mögulega að eiga einhverjar eignir í útlöndum og hinu að það kunni að vera hagsmunaárekstrar vegna vinnu við afnám haftanna eða uppgjör slitabúanna. Það þarf ekki endilega að vera svo.

Hins vegar vil ég koma einu að í tengslum við mögulega hagsmunaárekstra vegna þess hvernig málið hefur verið lagt upp í umræðunni. Það hafa ekki verið neinar samningaviðræður við kröfuhafa. Áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna og sá þáttur sem sneri að uppgjöri slitabúanna byggðist á efnahagslegu mati á því sem þyrfti að gerast og lagalegu mati á því hvað væri hægt að ganga langt. Þegar sú niðurstaða var fengin var hún einfaldlega færð í lög og ekkert um það samið.