145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[15:21]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er ótrúlegt mál. Þetta er mál sem mér sýnist vaxa af sama meiði og mjög umdeilt mál um verndarsvæði í byggð þar sem hæstv. forsætisráðherra er falið það vald fram hjá skipulagslögum að vernda heilu byggðirnar. Það er ótrúlegt að það mál hafi farið í gegn í þinginu eins og það stangast á við alla almenna skynsemi og allar hugmyndir manns um lýðræði og faglega ákvarðanatöku. Þetta mál af sama toga. Eins og hv. þingmaður fór yfir í ræðu sinni er hér aftur verið að færa ráðherra ótrúleg völd í viðkvæmum málaflokki.

Þá er 11. gr. ótrúlega furðuleg í því samhengi þar sem segir efnislega að ráðherra skuli taka ákvörðun um friðlýsingu og afnám hennar hvað varðar hús og mannvirki sem og samstæðu húsa. Hann á nú að ákveða það. Minjastofnun hefur haft það á sínu verksviði. Nú ætlar ráðherra bara að ákveða það.

Það er athyglisvert, eins og margir hafa væntanlega rekið augun í, að öðru máli gegnir varðandi fornleifar, skip og báta. Þá á Þjóðminjastofnun að sjá um að friðlýsa. Hvernig túlkar hv. þingmaður það? Hv. þingmaður kemur nú úr sjávarbyggð. Er hv. þingmaður kannski örlítið móðguð fyrir hönd skipa og báta í þessu samhengi, að ráðherrann skuli ekki hafa áhuga á þeim? Hverju sætir það? Er hér gerður eðlilegur greinarmunur? Sá greinarmunur er ekki gerður í lögunum núna á milli skipa og báta og fornminja annars vegar og síðan húsa og bygginga og húsaraða hins vegar. (Forseti hringir.) Má lesa úr þessu áhugaleysi hæstv. forsætisráðherra á skipum og bátum?