145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[15:24]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, auðvitað stingur í augu að þetta sé sundurgreint með þessum hætti. Svo virðist vera að hæstv. forsætisráðherra telji að fagþekking sem snýr að húsum og samstæðum húsa og öðru þvílíku liggi í ráðuneytinu eða honum sjálfum, sem mér finnst nú nær að ætla, en að hann telji fornleifum, skipum og bátum betur fyrir komið áfram hjá Minjastofnun þar sem fagþekkingin er.

Það segir svolítið mikið um innihald þessa frumvarps heilt yfir að verið er að draga ákveðna þætti inn í forsætisráðuneytið af þráhyggju til að hafa vald yfir þeim málum sem snúa að húsafriðun vegna gífurlegs áhuga viðkomandi hæstv. forsætisráðherra á þeim málaflokki. Við getum aldrei sett löggjöf sem miðast sérstaklega við áhugamál hvers og eins sem gegnir ráðherraembætti í einhvern tilgreindan tíma. Það væri þá orðin ansi skrýtin löggjöfin hér landi ef hvert ráðuneyti eða ráðherra drægi til sín úr öðrum lögum það sem hann hefði áhuga á, að hann teldi að því væri best fyrir komið hjá sér varðandi faglega yfirsýn. Ég held að við viljum ekki þróa þannig löggjöf á Íslandi heldur viljum við treysta á þá fagþekkingu sem byggst hefur upp innan Minjastofnunar Íslands og Þjóðminjasafns Íslands og nýta (Forseti hringir.) þann farveg.