145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[15:28]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, eftir því sem maður hugsar þetta mál meira því meiri áhyggjur hefur maður af því þegar lagasetning er unnin með þessum hætti, að þarna sé fyrst og fremst verið að mæta áhugamálum einstakra ráðherra sem gegna því starfi tímabundið. Við eigum auðvitað ekki að vinna lagafrumvörp með þeim hætti á Alþingi. Þess vegna hefur öll fagstéttin risið upp og lýst yfir miklum áhyggjum af því að illa sé að þessu máli staðið, vondur undirbúningur, og ef vilji sé til þess að gera breytingar verði að gefa sér tíma og vinna þær með miklu faglegri hætti. Sagt er að verið sé að kippa fótunum undan faglegu safnastarfi í landinu með þessum vinnubrögðum. Varðandi framkvæmdarvaldið og eftirlitið, á það að vera á sömu hendi? Erum við ekki alltaf að reyna að greina að framkvæmdarvald og eftirlit? Það er bara mjög mikilvægt.

Stjórn Félags íslenskra safna og safnamanna segir, með leyfi forseta:

„FÍSOS gagnrýnir að fyrir liggur illa undirbúið frumvarp sem virðist að engu leyti bera hag starfsemi stofnananna tveggja“ fyrir brjósti. — Að engu leyti. Þarna er djúpt í árinni tekið. En menn láta ekki frá sér svona blað úr þessum geira bara upp á grín. Það eru nú ekki kannski mestu pönkarar landsins þarna á ferðinni. Svo ég held að það verði að hlusta á þær raddir sem koma úr öllum áttum innan greinarinnar.

Hér segir, með leyfi forseta: „Þá telur félagið ámælisvert að forsendur frumvarpsins og þær ástæður sem liggja að baki fyrirhugaðri sameiningu séu óljósar, en slíkt getur aðeins leitt til ómarkvissra athugasemda af hálfu hagsmunaaðila.“