145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[16:05]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég deili þeirri skoðun með hv. þingmanni að málaflokkurinn eigi heima í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Ég hef aldrei áttað mig almennilega á því hvað liggur að baki því að fara með þessi mál til hæstv. forsætisráðherra, nema auðvitað að hæstv. forsætisráðherra hafi sérstakan áhuga á málaflokknum.

Það er auðvitað gott ef ráðherra hefur áhuga á sínu málasviði. Það er mjög gott ef menntamálaráðherra hefur áhuga á menntamálum. Það er í sjálfu sér fínt, en áhugasvið einstakra ráðherra er auðvitað ekki málefnaleg forsenda þess að ákveða starfssvið hvers ráðuneytis.

Ef við hugsum um spurninguna um sameiningu stofnananna, þ.e. hið meinta hagræði sem þar kæmi, þá heyrðist mér hv. þingmaður tala þannig að til lengri tíma mundi það sjálfsagt spara einhvern pening þó að fyrst um sinn mundi það kosta eitthvað smávægilegt.

Mig langar að heyra meira um viðhorf hv. þingmanns bara til þess hluta, þ.e. sameiningar stofnananna.