145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[16:14]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé rétt eins og hv. þingmaður segir að þegar á að fara í einhverjar breytingar, sameiningar eða slíkt, þá er eðli okkar að vera kannski hrædd við breytingar eða hafa alla vega fyrirvara við þær. Ég held að það sé aldrei auðvelt að fara í sameiningar, en þess þá heldur þarf að reyna að vinna það eins vel og hægt er og fá alla með frá upphafi. Það er ekki síst mikilvægt að starfsfólkið sjái sóknarfærin í sameinaðri stofnun og að sameining geti verið til hagsbóta fyrir alla. Í þessu tilfelli er ekki um að ræða eins og oft er þegar útibúin eru úti á landi, ótta við að uppsagnirnar verði fjarri höfuðborgarsvæðinu, eða að verið sé að flytja stofnun og fólk viti ekki hvort það þurfi að flytja með eða hvað gerist. Þarna erum við að tala um að starfsemin verði meira og minna á sama stað og engum verður sagt upp.

Ég lít þannig á að þær athugasemdir sem hafa komið lýsi ekki bara ótta við breytingar, heldur eru þær gerðar vegna þess að þarna er fagfólk sem þekkir þetta svið. (Forseti hringir.) Það talar af reynslu og bendir bara á að margar af þessum breytingum eru ekki til hagsbóta.