145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[17:31]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ekki væri það fyrirkomulag sem er hér á Íslandi, þ.e. að efstu þingmenn á lista í hverjum alþingiskosningum fái framkvæmdarvaldið í kaupbæti, þá held ég að mun betur væri farið með völd. Ef í stjórnarskrá væri ákvæði um að nógu lítill hluti kjörbærra manna, 10% eða svo, gæti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um einstaka mál, þá held ég að mjög fljótlega mundi komast á sú hefð ríkisstjórnar og stjórnmálamanna almennt að gera hlutina í fyrsta lagi í meiri sátt hver við annan og í öðru lagi í nánara samráði við almenning.

Nú hygg ég ekki að þetta mál yrði nokkurn tímann það umdeilt að það mundi ná þvílíkum þröskuldi og bið nú menn að heyra: Það er ekki eins og hvert mál mundi enda í þjóðaratkvæðagreiðslu með þeirri aðferð, langt í frá, það væri eitt og eitt mál sem mundi ná þeim þröskuldi. En ég held að slíkt fyrirkomulag mundi bæta vinnubrögðin sjálfkrafa. Ég held að það mundi koma á hefðum sem tíðkast lítið hérna, ég ætla ekki að segja aldrei, sem er það að menn tali fyrst hver við annan um það hvernig hægt sé að bæta málin þannig að allir geti unað vel við. Það getur vel verið að það sé eitthvað í þessum sameiningum — nú tala ég í hálfgerðu ábyrgðarleysi af því þetta hefur ekki fengið fulla meðferð í nefnd — að það séu einhver málefnaleg rök, sem við komum ekki auga á hér við 1. umr., fyrir sameiningu þessara stofnana. En við þurfum ekki endilega að ræða það í samhengi við það að færa aukin völd til hæstv. forsætisráðherra sem dæmi. Þetta er allt eitthvað sem við hefðum getað rætt fyrir fram og hefði kannski getað breytt frumvarpinu talsvert ef almennt væri hefð hér á landi fyrir samvinnu. Ég held samt að sú hefð geti ekki komist á nema það sé formlegt og að þjóðin veiti Alþingi ríkt aðhald og Alþingi ríkisstjórn.