145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[19:16]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni greinargóð svör og geri um leið athugasemd við stöðuna á klukkunni hjá mér.

Hv. þingmaður nefnir nokkur dæmi og eins tilfinningu sína fyrir málinu. Ég velti fyrir mér í ljósi þess sem fram kemur hjá hv. þingmanni og líka í almennri umræðu í samfélaginu, hversu sterk eða veik ráðuneytastjórnsýsla okkar er. Maður veltir því fyrir sér hversu varin við erum fyrir rugli, þ.e. ef hér er ráðherra sem er með einhverjar hugdettur og einhverjar delluhugmyndir, er það þá þannig að það sé ráðuneytanna að klæða delluna í búning frumvarpa? Er það þannig þegar við erum hér með ákveðna þróun í löggjöf á Íslandi sem snýst um að aðskilja stjórnsýslu á vegum hins opinbera? Það liggur allt saman fyrir og það liggur fyrir hvað gerðist með núgildandi lögum um menningarminjar þar sem megintilgangurinn var að auka skilvirkni og einfalda stjórnsýslu o.s.frv. Við erum með tiltölulega nýja löggjöf í þessu efni. Svo fáum við dellu. Það kemur einhver ráðherra inn í ráðuneytið sem er með eitthvað á perunni. Erum við þannig stödd í íslenska Stjórnarráðinu að það blikka engin ljós, að það fer ekki í gang neitt sem segir: Nei, þetta er ekki boðlegt, þetta er ekki boðlegt fyrir ríki sem telur sig vera með burðugt framkvæmdarvald og burðugt löggjafarvald að það gangi að hér komi ráðherra sem er bara með eitthvað á perunni og það sé verkefni (Forseti hringir.) embættismanna að pakka dellunni í frumvarpsbúning og setja löggjafarþingið í þá stöðu að gera delluna að lögum?