145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[17:16]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er svo að við þurfum að láta rannsaka þessi mál til þess að skapa frið og traust í samfélaginu.

Ráðamenn, ráðherrar hér og þingmenn sem tengjast aflandsfélögum með einum eða öðrum hætti, eiga að sjá sóma sinn í að víkja af þingi á meðan. Þeir eiga að sýna auðmýkt. Þeir eiga að sýna þjóð sinni virðingu.

Þetta er og verður bara starfsstjórn. Þessi stjórn fer ekki að koma einhverjum stórkostlegum málum í gegn á örfáum vikum. Það er öllum ljóst sem hér inni starfa.

Firring fyrrverandi ráðherra þegar hann talar um tilhlökkunarefni eins og hér var nefnt áðan er stórkostlegt áhyggjuefni.

Lýðræðið þarf að endurreisa, virðulegi forseti, og traustið á stjórnmálunum. Við þurfum öll að endurnýja umboð okkar til kjósenda og það á að vera í þeirra höndum en ekki í höndum 38 þingmanna sjálfstæðismanna og framsóknarmanna. Það er ekki það sem fólk er að segja hér úti og berja bumbur: Þið getið ráðið þessu alein. (Forseti hringir.) Nei, fólkið er að segja: Við viljum kjósa. Núna.