145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu.

607. mál
[15:05]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir þá tillögu sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir flutti. Ég tel mjög mikilvægt að Vestnorræna ráðið fái þá aðild að Norðurskautsráðinu sem hér er æskt. Á síðustu árum hefur Vestnorræna ráðið undir forustu hv. þingmanns látið mjög sköruglega að sér kveða um málefni norðurslóða. Eftir því hefur verið tekið. Ég er algjörlega sammála henni um að sú áhersla sem Vestnorræna ráðið hefur þannig lagt og markað til framtíðar er hárrétt og varðar töluvert miklu fyrir vægi Íslands innan málaflokksins. Norðurskautsráðið var lengi vel stofnun sem átti erfitt uppdráttar, menn tóku það ekki nægilega alvarlega, og enn reyna stór ríki óbeint að grafa undan því með því að taka ákvarðanir út á óformlegri vettvang, vettvang hins svokallaða fimm ríkja samstarfs.

Stefna Íslands hefur alltaf verið að slá skjaldborg um Norðurskautsráðið og efla vægi þess. Við höfum meðal annars séð til þess á síðustu árum og haft að því frumkvæði að ráðist hefur verið í mikilvæga samningagerð innan vébanda ráðsins. Þess er skemmst að minnast að tveim mikilvægustu samningunum sem Norðurskautsráðið hefur gert var lokið á Íslandi. Það var ekki síst atbeini Íslendinga sem leiddi til þess að niðurstaða náðist í þeirri samningagerð.

Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir leiddi sterk rök að því að það væri fullkomlega eðlilegt að kjörnir fulltrúar þjóðþinganna á svæðinu sem fellur undir Vestnorræna ráðið reyndu eftir föngum að gera sig gildanda í starfi ráðsins. Það er mjög vel. Ráðið hefur á síðustu árum tekið sér aukin verkefni. Það er meiri samhljómur en áður um að það eigi að vera hinn mikilvægasti samstarfsvettvangur norðurskautsríkjanna. Sérstaklega er vert að leggja áherslu á það að á sama tíma og miklir úfar hafa risið meðal eins ríkisins, Rússlands, og annarra Vesturlanda hefur eigi að síður samstarfið um norðurslóðir ekki borið mikinn skaða af. Þar má meðal annars sjá stað verka og yfirlýsinga íslenskra ráðamanna, þar á meðal forseta Íslands, og það er athyglisvert með hvaða hætti Íslendingar hafa lagt aðrar áherslur en til dæmis Kanadamenn sem á sínum tíma felldu niður tiltekið tvíhliða samstarf millum Kanada og Rússlands um norðurskautsmálefni. Góðu heilli fetuðu Bandaríkin, sem tóku við forustu á eftir Kanadamönnum, ekki í þau fótspor.

Á næstu árum, á meðan staðan er viðkvæm á millum Rússa og annarra, tel ég Norðurskautsráðið kjörinn vettvang til að menn geti rætt formlega saman um málefni sem tengjast norðurslóðum, en við vitum líka að það er mjög mikilvægt að geta átt óformleg samskipti, ekki síst fyrir land eins og Ísland sem á ekki mörg tækifæri til að sitja beinlínis við sama borð og helstu leiðtogar þessara ríkja, til að geta komið að öðrum málum, til að geta eflt og styrkt samband. Þetta skiptir máli fyrir okkur. Áheyrnaraðild Vestnorræna ráðsins að Norðurskautsráðinu mundi klárlega styrkja málflutning Íslands, styrkja stöðu Alþingis sem stofnunar, að hafa með þeim hætti beinan seturétt á þeim vettvangi þar sem mestu ákvarðanirnar um málefni norðurslóða eru að minnsta kosti mótaðar og vonandi í framtíðinni teknar.

Ef við horfum síðan á hinar tvær þjóðirnar sem þetta varðar líka, Grænland og Færeyjar, vitum við að sérstaklega önnur þjóðin, Grænland, hefur kvartað undan því að hafa ekki nægan og ekki réttan aðgang að Norðurskautsráðinu. Við minnumst þess til dæmis þegar Grænlendingar fóru fram á það að hafa forsvar á fundum ráðherra Norðurskautsráðsins í stað þess að fulltrúi Dana gerði það. Við því var ekki orðið. Það voru mikil vonbrigði meðal Grænlendinga. Þeir hafa stundum viðrað þær skoðanir sínar að þar sem Danmörk hefur aðild að ráðinu vegna þess að Grænland tilheyrir konungsríkinu ættu Grænlendingar að hafa meiri ítök en þeir hafa í dag. Þetta er ein leið til að auka ítök Grænlendinga og vitaskuld um leið Færeyinga á þeim vettvangi þar sem stefnumótunin fer fram. Við ættum að fagna því. Það skiptir máli fyrir okkur Íslendinga að styrkja samstarf þessara þriggja þjóða og eins og ég hef áður getið um í minni ræðu hefur samstarf þinga þjóðanna þriggja innan Vestnorræna ráðsins verið eflt mikið með mjög lofsverðum hætti. Mér finnst þessi framsýna tillaga rökrétt framhald af því starfi.

Þess vegna lít ég svo á að núna þegar við höfum nýjan og vaskan hæstv. utanríkisráðherra sé þetta kjörið mál fyrir hana til að koma á framfæri þeim vilja sem ég vona að komi fram í atkvæðagreiðslu í næstu viku að sé mjög eindreginn á Alþingi Íslendinga fyrir því að það verði gert. Ég tel þetta mál sem ríkisstjórn Íslands geti haft töluverð áhrif á með því að leggja á það mikinn þunga. Kannski skiptir sköpum að sjálfstætt og fullvalda ríki eins og Ísland geti talað fyrir þessari hugmynd gagnvart hinum norðurskautsríkjunum.

Tillagan er tímabær af því að hún fellur mjög að þörfum og hagsmunum Íslands.