145. löggjafarþing — 99. fundur,  18. apr. 2016.

málaskrá ríkisstjórnarinnar.

[15:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mundi fagna því ef við gætum varið meiri tíma í efnislega umræðu um mikilvæg mál eins og þetta, um misvægi atkvæða. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að með einhverjum hætti þurfi að taka tillit til svæða á landsbyggðinni. Sú aðferð sem núna er beitt er að heimila í kosningalögum — það er ekki í stjórnarskrá — að atkvæðavægið sé allt að tvöfalt. Það eru fleiri leiðir færar eins og til dæmis þær að binda þingmenn ákveðnum svæðum. Með því gætum við í grunninn byggt á jöfnu vægi atkvæða um allt land þó að þingmenn væru bundnir við tiltekin svæði. En okkur hefur orðið mjög lítið ágengt í umræðum um þetta á þinginu. Mér finnst það dálítið miður. Ókosturinn við landið sem eitt kjördæmi með jafnan atkvæðisrétt (Forseti hringir.) hefur alltaf verið í mínum huga sá að þá væri fjarlægðin milli kjósenda og fulltrúa þeirra að aukast.