145. löggjafarþing — 99. fundur,  18. apr. 2016.

aðgerðir til að takmarka plastumbúðir.

602. mál
[15:51]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir ágæta fyrirspurn. Starfshópur er að störfum og hefur það að markmiði að móta tillögur að aðgerðum til að draga úr notkun plastpoka með árangursríkum hætti. Þeim starfshópi ber að skila skýrslu til mín eigi síðar en 15. júní næstkomandi. Mig langar líka að geta tillögu sem samþykkt var hér á Alþingi 1. júlí 2015 og tillögu Umhverfisstofnunar um það hvernig hægt væri að vinna stefnu og aðgerðir sem miða að því að draga úr plastpokanotkun hér á landi.

Það er óneitanlega nokkuð umfangsmikið verkefni að draga úr allri plastnotkun en eigi að síður mjög brýnt og ber að taka alvarlega. Umhverfisstofnun er að fara af stað með verkefni er varðar míkróplast og er það meðal annars í samstarfi við Þýskaland, Austurríki, Holland, Portúgal og Norðurlöndin. Markmið þess verkefnis er að búa til skilgreiningu á því hvað sé míkróplast, hvernig eigi að vakta vandann og til hvaða aðgerða sé skynsamlegast að grípa. Plastið er svo stór hluti af daglegu lífi okkar að það getur orðið örðugt.

Fyrir utan alla þá ókosti sem plastnotkun hefur í för með sér er hægt að nefna að það þarf um tvö kíló af olíu til að framleiða eitt kíló af plasti. Mér finnst sjálfsagt að við reynum að setja á laggirnar, og er með það í undirbúningi, annan starfshóp til að kalla eftir frekari tillögum um það hvernig hægt væri að takmarka plastnotkun með sérstaka áherslu á einnota umbúðir. Þá langar mig til að hæla Alþingi fyrir að bjóða fólki upp á vatn og geta hellt því úr könnu í glös en ekki í einnota plastumbúðir, sem er því miður mjög víða í opinberum stofnunum.

Einnig er spurt hvort reglur gildi um takmörkun á notkun á plastumbúðum hér á landi. Það hefur komið til umræðu hvort ástæða sé til að nýta heimild í lögum nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, en samkvæmt henni getur ráðherra sett inn í reglugerð ákvæði um bann við notkun og sölu einnota drykkjarvöruumbúða sem ekki er unnt eða torvelt er að endurnota eða endurnýja. Þessi heimild hefur ekki verið nýtt og á við drykkjarvöruumbúðir úr svokölluðu PC-plasti sem ekki er hægt að endurvinna eða svaladrykkjarpoka úr plasti og áli sem er brætt saman og er óendurvinnanlegt, sem er mjög til baga.

Fyrst og fremst þurfum við aukna vitundarvakningu um óþarfar plastumbúðir til þess að draga úr notkun á hvers konar plastumbúðum. Það er mikilvægast. Til þess að stuðla að hugarfarsbreytingunni er mikilvægt að efla fræðslu til að sporna gegn sóuninni. Þetta kemur allt fram í stefnu okkar um úrgangsforvarnir, Saman gegn sóun. Nýjustu rannsóknir hafa sýnt að plastúrgangur í hafi skapar hættu fyrir vistkerfi þess og berst inn í fæðukeðjuna. Með því að draga úr myndun plastúrgangs er mögulegt að minnka notkun auðlindarinnar, jarðolíu, og einnig draga úr dreifingu á efnum sem eru skaðleg umhverfinu eins og hormónaraskandi efnum.

Mér finnst ánægjulegt að sjá og skynja að almenningur, fyrirtæki og stofnanir eru að flokka úrgang mun meira en gert hefur verið. Þó eigum við enn langt í land. Samhliða því þarf að kynna fyrir fólki að hægt er að nota fjölnota ílát, fjölnota poka o.s.frv. til að minnka notkun á hvers kyns plasti, t.d. einnota matarílátum í mötuneytum. Einnig þarf að koma í veg fyrir notkun plasts sem torvelt eða ómögulegt er að endurvinna eins og áður hefur komið fram.

Ég tel mjög mikilvægt að hafa gott samstarf við framleiðendur og kaupmenn til að draga eins og kostur er úr notkun plastumbúða og ónauðsynlegra umbúða, eins og hér var getið um varðandi páskaeggin, og stuðla að því að hönnun umbúða taki mið af úrgangsforvörnum. Til hvaða aðgerða hyggst ráðherra grípa? Ég hef nefnt orðið fræðsla. Mér finnst það alveg lykilatriði, það skiptir gríðarlegu máli. En það er líka hægt að fara þá leið að banna að einhverju eða öllu leyti framleiðslu og notkun samsettra plastumbúða og annarra umbúða sem torvelt er að endurnýta. Skattlagning getur komið til greina eða niðurgreiðsla á umbúðum sem eru æskilegri út frá umhverfissjónarmiðum og jafnframt notkun hagrænna hvata til grænnar nýsköpunar á sviði umbúða. En eins og fyrirspyrjandinn gat um er afskaplega mikilvægt að við getum stuðlað að nýsköpun á sviði grænna umbúða.