145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:17]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held reyndar að það hafi verið allt í lagi með þá aðgerð. Það er nú þannig að hver og einn málaflokkur í ríkisrekstrinum er mikilvægur. Samgöngumálin eru svo sannarlega mikilvæg. Ég held að ég hafi, frá því að ég settist í þennan stól ráðherra, reynt að tala eins og ég hef frekast getað um nauðsyn þess að bæta þar í. Ég satt að segja held að enginn ágreiningur sé um það holt og bolt, hvorki við þann ráðherra sem hér stendur né almennt. Ég held að almennt vilji menn gera miklu betur í þessum málum. Menn eru smátt og smátt að reyna að fikra sig í þær áttir. Við skulum taka eftir þeim peningum sem þó eru settir í þetta og reyna að nýta þá eins vel og hægt er. Það er það verkefni sem innanríkisráðherra á hverjum tíma stendur frammi fyrir.

Ég er alveg eindregið þeirrar skoðunar að við eigum að gera miklu meira af því, og það er það sem við erum að reyna að gera í þessari áætlun, að setja peninga í viðhald. Þeir peningar nýtast afar vel. Auðvitað þurfum við að fara í ákveðnar nýframkvæmdir. Það segir sig sjálft og við vitum að það er slysahætta hér og þar á vegunum. Hv. þingmaður nefndi réttilega einbreiðar brýr sem eru í hennar kjördæmi stórhættulegar, á austursvæðinu þar og víðar um landið. Við höfum stundum gælt við það að gaman væri að fara í átak til að útrýma algjörlega einbreiðum brúm. Til þess þarf verulega forgangsröðun í þá átt.

Við höfum líka ákveðið það, sem ég vil endilega minna menn á, að geyma alltaf töluvert stóran hluta samgöngufjár í jarðgangaframkvæmdir. Á hverju einasta ári verjum við 3–3,5 milljörðum fast í jarðgöng. Þeir peningar eru ekkert nýttir í neitt annað á meðan. Við höfum haft það þannig hér að hvert jarðgangaverkefni tekur við af öðru. Þetta er auðvitað mjög stór hluti af því fjármagni sem við erum að tala um hérna. Þannig að við erum alltaf í einhvers konar forgangsröðun í samgöngumálunum.

Auðvitað er ekki auðvelt að ákveða hvaða verkefni eigi að fara í, en þetta eru ekki hlutir sem eru fundnir upp á einum eða tveimur mánuðum, þetta er margra ára samtal sem á sér stað milli allra stjórnmálaflokka og annarra.