145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

málaskrá og tímasetning kosninga.

[15:29]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt að rifja það upp í upphafi vegna þessa inngangs að þessum dagskrárlið að á fyrsta degi ríkisstjórnarinnar setti stjórnarandstaðan fram vantraust á hana sem var fellt með 38 þingmanna meiri hluta gegn 25. Hér er starfandi mjög öflug ríkisstjórn með mikinn meiri hluta og hún hyggst starfa í fullu umboði þingsins með þingræðið að vopni þangað til kosið verður í haust eins og við höfum sagt. Það er ekki ósvipað eins og við værum stödd í nóvember og það væru kosningar í vor og þingmenn gætu ekki starfað vegna þess að þeir vissu ekki hvort kosningarnar yrðu 20. apríl, 25. eða 30. apríl. Það er einfaldlega þannig að þingmenn eru hér í fullu starfi, það er fullt af verkefnum í þinginu sem er eðlilegt að gangi áfram, verkefni sem hafa verið í þinginu og eru í þinginu, hafa verið að koma inn í þingið, hafa verið í nefndum og ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á að þau verði kláruð enda hluti af þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir og unnið eftir síðastliðin þrjú ár og þessi ríkisstjórn sem nú starfar ætlar að halda áfram með.

Ég hyggst ásamt fjármálaráðherra eiga fund með forseta Alþingis í dag og í framhaldinu hyggst ég boða til fundar með stjórnarandstöðunni á föstudaginn til að fara yfir þau mál sem við hófum mjög góða umræðu um í síðustu viku og til að halda áfram með það samtal sem við þurfum að eiga. Á síðustu dögum hef ég einnig, eins og ég hef sagt, átt samtal við aðra aðila í samfélaginu, það er ekki bara stjórnarandstaðan sem þarf að eiga samtal við, til þess að skapa hér traust. (Gripið fram í.) Ég vona að menn hafi skilning á slíku. En þetta er það sem planað er. Það hefur engin breyting orðið á þeim yfirlýsingum sem forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa sett fram.