145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[14:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki í borgarstjórn og get ekki svarað spurningu hv. þingmanns vegna þess að hann gerir það sem er algengt, að manni er gefið það að hafa kynnt sér þau mál sem eru ekki á manns könnu. Ég get ekki svarað hv. þingmanni um það mál.

En það breytir engu um skoðanir mínar þegar um er að ræða mál sem er til umræðu eins og nú og varðar aflandsfélög og rannsókn á þeim, sem ég styð, að þá komi ekki til umræðu sá sem málið varðar og hefur málaflokkinn á sínum höndum, sem er nefnilega hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, og mál hans er beinlínis hluti af ástæðunni fyrir því að þetta mál er sett á dagskrá til að byrja með.

Hvað varðar það mál sem hv. þingmaður nefnir í sambandi við Reykjavíkurborg þykir mér alveg sjálfsagt að skoða það líka. En ef ég bæri ábyrgð á því máli og væri ráðherra þess málaflokks mundi ég náttúrlega mæta á svæðið til að ræða það og til að ræða þau atriði sem varða kannski málið.

En eins og ég segi, ég vil gefa mönnum eins mikinn séns og mögulegt er. Ég vil að við leyfum fólki að njóta vafans. Þess vegna hef ég rosalega gott af því sem þingmaður sem vill almennt taka meðvitaðar ákvarðanir, að vita hvað ég er að tala um áður en ég byrja að tala um það og vissulega áður en ég tek ákvörðun um það, að heyra rök hæstv. fjármálaráðherra hérna. Að heyra hann fara í andsvör við flutningsmenn tillögunnar. Að fá hann til að taka hér ræðu sem væri hægt að fara í andsvör við og fá sjónarmið hans á þessari tillögu, hvers vegna hún sé góð eða slæm eftir atvikum. Styður hæstv. ráðherra tillöguna? Við vitum það ekki einu sinni. Það skiptir máli fyrir umræðuna.

Ég er viss um að hægt væri að skera út tvær, þrjár ræður eða fleiri af hálfu stjórnarandstöðuþingmanna ef hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra kæmi og segðist styðja tillöguna. Þá gætum við klárað þetta sennilega í dag ef eitthvað er, alla vega snemma í næstu viku ef svo væri. Það er það sem ég geri athugasemd við, að hafa ekki umræðuna, sem þarf að eiga sér stað, hér.