145. löggjafarþing — 105. fundur,  2. maí 2016.

verðmat á hlut Landsbankans í Borgun.

477. mál
[15:52]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Þetta er mjög alvarlegt mál. Það liggur fyrir að ríkissjóður hefur í gegnum Landsbankann tapað 4–6 milljörðum kr. á sölu á hlut í Borgun sem fór fram með mjög óeðlilegum hætti. Þeir þingmenn sem hér töluðu áðan, hv. þingmenn Kristján L. Möller, Þorsteinn Sæmundsson og Árni Páll Árnason, hafa reynt að grafast fyrir um það ásamt öðrum þingmönnum hvernig stóð á þessu. Fyrirspurnum var beint til hæstv. fjármálaráðherra fyrir lifandis löngu. Ég held að það séu 12 vikur frá því að þessi fyrirspurn kom fram og það þurfti mjög að ganga eftir því að hann svaraði henni.

Og hvað gerir hæstv. ráðherra? Jú, enn einu sinni kemur hann og skilar auðu. Hæstv. fjármálaráðherra getur ekki svarað því hvort til hafi verið verðmat eða upp á hversu mikið það var. Hæstv. fjármálaráðherra segir líka bara „ganske pent“ hérna að, jú, Bankasýslan hafi spurt (Forseti hringir.) hvernig eigi að endurheimta trúverðugleika stjórnenda bankans. Hvað ætlar hæstv. fjármálaráðherra að gera í þessu máli? Ætlar hann að láta það reka í burtu eins og sprek fyrir straumi? Hæstv. fjármálaráðherra verður að stappa fæti sínum niður fastar en hann hefur gert hingað til. Þetta mál þarf að upplýsa (Forseti hringir.) og hann þarf að upplýsa það.

Ég spyr: Hverju er verið að leyna í þessu máli? Er kannski verið að leyna hæstv. fjármálaráðherra upplýsingum af hálfu Landsbankans? Það er það sem við þurfum að komast að raun um. Er til dæmis (Forseti hringir.) verið að fara á bak við hæstv. fjármálaráðherra?