145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

meðferð sakamála.

659. mál
[17:48]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er reginmunur á því að dæma og að hafa eftirlit með því að lögum og reglum sé framfylgt. Ég er hins vegar enginn Hæstiréttur í þessum efnum, þetta er bara mín skoðun. Til þess, með leyfi frú forseta, að við höfum „checks and balances“, eða temprum valdið, þá er mjög heppilegt í þessu tilviki að það séu einmitt andstæðir armar stjórnmálanna sem kæmu að því. Þá hafa þeir eftirlit hvor með öðrum. En ég hef ekkert á móti þeirri nálgun sem hv. þingmaður er með. Kannski er hún bara mjög prýðileg, þessi tveggja laga nálgun sem hv. þingmaður reifar hérna; ég hef ekkert á móti henni og hún kann vel að vera besta leiðin.

Ég horfi á reynslu annarra þjóða. Það hafa komið upp miklar umræður um þetta, alveg gríðarlega miklar umræður, í grannlöndum okkar og reyndar úti um alla Evrópu. Þær urðu auðvitað mestar eftir að kalda stríðinu lauk þegar í ljós kom að víða höfðu stórfelldar hleranir verið í tíð alls konar ríkisstjórna, bæði af hægri vængnum og líka af vinstri vængnum, í ýmsum löndum. Ég nefni til dæmis að í Noregi stóðu pólitískir félagar mínir, Verkamannaflokkurinn, fyrir stórfelldum hlerunum. Hér var það Sjálfstæðisflokkurinn sem stóð fyrir miklu umfangsminni hlerunum. Þannig var það.

Við þurfum að læra af þessari reynslu. Mér er eiginlega alveg sama hvaða aðferðum við beitum. Ég tel bara að það þurfi einhvers konar lýðræðislegt eftirlit með þessari framkvæmd. Í mínum augum tengist lýðræðislegt eftirlit fulltrúum þeirra sem þjóðin kýs. Ég vil að þingið komi að þessu með einhverjum hætti, en ég hef ekkert á móti þeirri nálgun sem hv. þingmaður reifaði hér áðan. Ég kannast við hugmyndir hans úr þingsályktunartillögu Pírata, en eins (Forseti hringir.) góð og sú tillaga var þá svaraði hún ekki þessum þætti málsins, eins og ég reifaði hér á sínum tíma.