145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

almennar íbúðir.

435. mál
[11:50]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera athugasemdir við athyglissvið þingmanna sem sitja í þessum sal og fyrirspurnum er beint til, en ég spurði hv. þingmann spurningar og hún notaði ekki nema helminginn af tíma sínum til að svara. Mætti ég biðja hv. þingmann um að svara spurningunni sem ég spurði hana um sem var málefnaleg og einlæg. Hún var þessi: Telur hv. þingmaður að sú stefna sem frumvarpið hvílir á og lögin ef af verður, 400 íbúðir í fjögur ár, svari vandanum og sé líklegt til þess að leysa hann? Ég tel alls ekki svo vera, ég tel að það vanti miklu meiri peninga í þetta.

Hitt breytir engu, herra forseti, að Framsóknarflokkurinn hafði fjögur meginmál varðandi úrbætur í húsnæðismálum og hefur ekki uppfyllt neitt þeirra að hámarki, ekki eitt einasta. Hann lofaði 300 milljörðum í niðurfærslu á höfuðstól, hann komst í 72 milljarða. (Forseti hringir.) Svo gæti maður lengi talið. Hér er verið að draga Framsóknarflokkinn að landi af stjórnarandstöðunni og ASÍ. Hann hefur engu komið til leiðar fyrir eigin vélarafli, það er hin beiska staðreynd. (Forseti hringir.) En ég fagna því samt að málið er komið hingað og skal hvenær sem er taka þann flokk í minn náðarfaðm og reyna að hjálpa honum til réttrar leiðar.