145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í morgun voru fulltrúar atvinnuveganefndar á fundi fjárlaganefndar þar sem farið var yfir ríkisfjármálaáætlun. Þar sat atvinnuvegaráðherra fyrir svörum en undir hann falla m.a. byggðamál og ræddum við ýmislegt, t.d. jöfnun flutningskostnaðar. Því verkefni var komið á árið 2011 hjá síðustu ríkisstjórn þar sem útflutningsfyrirtæki fá möguleika á að sækja um jöfnun flutningskostnaðar til að jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja sem eru langt frá útflutningshöfn. Þessi sjóður er um 175 milljónir í dag og hefur ekki verið nýttur til fulls. Í því sambandi hef ég talað fyrir því að haldið verði áfram að vinna með þetta verkefni og sjóðurinn eins og hann er núna nýttur til fulls og horft til þess að jafna flutningskostnað til þeirra íbúa landsins sem búa fjærst mesta þéttbýliskjarnanum á höfuðborgarsvæðinu en þurfa að sækja þangað ýmis aðföng sem kostar mikið að flytja. Fólk sem býr á landsbyggðinni þekkir það, hvort sem það er eitthvað sem tilheyrir byggingu húsnæðis eða bara varningur inn á heimilið er flutningskostnaður gífurlega hár. Þetta á líka við um smásöluverslun úti á landi sem situr uppi með mjög mikinn flutningskostnað sem kemur fram í vöruverði. Verslunin Bónus hefur jafnað þennan flutningskostnað sjálf innbyrðis en litlu verslanirnar búa við þennan mikla ójöfnuð.

Ég tel mjög brýnt verkefni að útfæra hugsun varðandi jöfnun flutningskostnaðar sem útflutningsfyrirtækin hafa notið til þessa, að það sé fært (Forseti hringir.) yfir á þá íbúa og þau fyrirtæki og smásöluverslanir sem eru fjærst stórhöfuðborgarsvæðinu, sem margir þurfa að sækja þjónustu sína til.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna