145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

ungt fólk og staða þess.

[16:15]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Eflaust hefur ekki farið fram hjá neinum að undanfarin missiri hefur mikil umræða átt sér stað um stöðu ungs fólks og þar hefur m.a. verið fjallað um hversu stór hluti af ráðstöfun þess fer í húsnæðiskostnað og erfiðleika við að eignast húsnæði. Óhætt er að segja að húsnæðiskostnaður hafi veruleg áhrif á lífsgæði einstaklinga og fjölskyldna. Á þingi hefur aldeilis verið unnið að húsnæðismálum. Samþykkt hafa verið lög um húsnæðissamvinnufélög og nú þegar er uppbygging hafin á 400 íbúðum sem er byggð á þeim lögum.

Í gær samþykktu hv. þingmenn frumvarp um almennar félagsíbúðir eftir 2. umr. Markmið þess frumvarps er að byggja 2.300 leiguíbúðir fyrir tvo lægstu tekjufimmtungana. Þar af er stór hópur ungs fólks. Má þar nefna námsmenn og einstaklinga sem eru nýkomnir úr námi. Auk þessa er vinna hafin við nefndarálit vegna aukinna húsnæðisbóta og markmið laga um félagsíbúðir og húsnæðisbætur er að húsnæðiskostnaður vegi ekki meira en 25% af ráðstöfunartekjum þeirra hópa sem aðgerðirnar eiga að ná til. Jafnframt er væntanlegt frumvarp sem á að auðvelda fyrstu kaup og ná þær aðgerðir af mestum þunga til unga fólksins okkar. Það frumvarp er eitt af þeim málum sem eru á forgangslista yfir þau sem á að klára fyrir væntanlegar kosningar. Þar er m.a. komið inn á hvata til sparnaðar, aðgerðir er varða verðtryggingu og endurskoðun á greiðslumati.

Auk þess er unnið að frumvarpi um breytingar á lögum um fæðingarorlof. Þar er markmiðið að hækka greiðslur og lengja fæðingarorlof. Það eru aðgerðir sem koma mest við þann hóp sem hér um ræðir.

Í lok ræðu minnar langar mig til að árétta og minna á forgangsröðun ríkisstjórnarinnar því að hún hefur aðeins komist til tals í þessari umræðu. Það er rétt og það er staðreynd að um 50% af útgjöldum ríkissjóðs hafa farið til velferðar- og heilbrigðismála. Tölurnar tala sínu máli. Auk þess má nefna að skuldir ríkissjóðs bíða ekki komandi kynslóða. Ríkissjóður hefur ekki staðið jafn vel frá því á síldarárunum og við sjáum ótrúlegan árangur í því að greiða niður skuldir ríkisins eins og tölur sýna sem birtast í ríkisfjármálaáætlun (Forseti hringir.) fyrir næstu ár.