145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

dómstólar.

615. mál
[15:54]
Horfa

Hanna Birna Kristjánsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið. Fyrst og síðast ætla ég að þakka formanni nefndarinnar, sem fór hér yfir málið sem framsögumaður, fyrir hennar og þeirra miklu vinnu í þágu þessa máls. Eins og fram kom í máli hv. þingmanns sem talaði á undan mér er þetta risastórt og mjög mikilvægt mál sem mjög margir hafa komið að. Þá er enn frekar er ástæða til að þakka þeim sem að því hafa komið og fagna því að þessi breyting á fyrirkomulagi dómstóla sé loks fram komin. Og það er ástæða til að fagna því líka að um málið virðist ætla að nást ágæt og víðtæk sátt. Það skiptir ótrúlega miklu máli vegna þess að eins og allir hv. þingmenn segja sem talað hafa hér, þá þurfa allar breytingar af þessari stærðargráðu, þessu umfangi og þessu mikilvægi, að vera þess eðlis að hægt sé að treysta því að þær lifi fram yfir kosningar og séu studdar af sem flestum sem taka þátt í störfunum á löggjafarsamkundunni. Ég þakka fyrir það.

Ég held að málið sé mjög mikilvægt, ekki aðeins til að setja íslenskt kerfi dómstóla í svipaðan takt og búning og gerist hjá nágrannaþjóðunum, heldur einnig til að tryggja að málsmeðferð og málarekstur á þessum vettvangi verði sem vandaðastur og að við tryggjum sem besta vinnu í kringum þessi gríðarlega mikilvægu verkefni sem varða svo margt og svo marga. Ég held að það gerist með þessu fyrirkomulagi. Ég tek líka undir það sem margir hv. þingmenn hafa nefnt; við þurfum að huga að fyrirkomulagi þessara mála í heild sinni, velta fyrir okkur áleitnum og stórum spurningum. Það er ekki endilega tekið á þeim í frumvarpinu en það breytir engu um það að það kerfi sem við treystum svo mikið á, dómstólarnir, verður að vera þannig að um það ríki sátt. Við höfum öll heyrt, líkt og fram kom í máli hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar áðan, um þær áhyggjur sem ýmsir hafa af dómstólum okkar í dag. Þar eru umkvörtunarefni sem auðvitað má að hluta til skýra með miklu álagi, gríðarlegu álagi undanfarin ár, mun meira en eðlilegt getur talist. Við þurfum engu að síður að takast á við margar áleitnar spurningar um innihald og hvernig almenningur upplifir hlutina og eins hvaða reynslusögur við heyrum.

Ég sat sem innanríkisráðherra um tíma, ekki það að ég ætla ekki að fara að rekja það úr þessum ræðustól, en ég verð að viðurkenna að mér var nokkuð brugðið við ýmsar af þeim uppgötvunum sem ég áttaði mig á í kringum dómskerfið, ýmsum reynslusögum og ýmsu sem ég taldi þá og tel enn, að betur megi fara.

Eitt af því sem mig langaði að nefna í því samhengi heyrir ekki beint undir þetta frumvarp en það heyrir engu að síður undir umræðuna um eftirlit með dómstólum. Það er sú skoðun mín sem ég hef verið sannfærð um og varð sannfærðari um á degi hverjum þegar ég sat í innanríkisráðuneytinu, að það verður að skilja dómsmálin frá öðrum viðfangsefnum stjórnkerfisins. Það er algert grundvallaratriði. Það verður að breyta stjórnskipan okkar þannig að dómsmálin séu í sérstöku ráðuneyti. Það skref sem stigið var hér á sínum tíma, að sameina þau mál undir ráðuneyti sveitarstjórna, samgöngumála og alls kyns annarra mála, var ekki gott skref.

Í flestum vestrænum löndum og þeim löndum sem við berum okkur saman við eru dómsmálin talin vera svo ólík öllum öðrum viðfangsefnum. Það er svo mikilvægt að þau séu sem fjærst framkvæmdarvaldinu og löggjafarvaldinu vegna þrískiptingar ríkisvalds að þau eiga og verða að heyra undir sérstakt ráðuneyti. Það þarf ekki að auka kostnað í kerfinu. Það er ekki einu sinni nauðsynlegt að setja sérstakan ráðherra yfir slíkt ráðuneyti. Það getur verið að það geti farið ágætlega að slíkt ráðuneyti heyri undir ráðherra sem situr í öðru ráðuneyti. En það eru ákveðin vinnubrögð, ákveðið vinnulag, ákveðin álitaefni sem eru þannig að dómsmálin og viðfangsefni dómstóla eiga ekki samleið með áætlanagerð og ákvörðunum í kringum t.d. vegamál, samgöngumál, sveitarstjórnarmál og önnur mál, sem eru í eðli sínu ólík. Það á að mínu mati reyndar við um öll mál í stjórnskipulagi okkar. Það er enginn málaflokkur, ekkert ráðuneyti sem hýsir neitt annað en einungis þennan eina málaflokk. Það getur verið lítið ráðuneyti, það getur verið afar sértækt og sérsniðið að þessum viðfangsefnum, en það væri að mínu mati stærsta skrefið í átt til bættrar umgengni um þennan málaflokk og að tryggja að þrískipting ríkisvaldsins sé eins gulltryggð og við viljum hafa hana að taka þessa breytingu inn í stjórnskipan landsins og tryggja að þessi málaflokkur hafi sér til stuðnings sérstakt ráðuneyti sér til eftirlits og umsýslu.