145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[16:26]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef ég byrja á þessu síðasta þá varaði ég nú einmitt við búvörusamningnum vegna þeirra hvata til framleiðsluaukningar sem inn í hann eru byggðir.

Ég benti á að ef t.d. sauðfé stórfjölgar í landinu og sett verður á kannski 100.000–150.000 vetrarfóðraðar kindur í viðbót á næstu þremur árum mun það valda árekstrum við umhverfissjónarmiðin, beitarþol landsins o.s.frv. Ég hélt því heldur rækilega til haga. Það á kannski meira heima í umræðunum um búvörusamninga en þessu.

Þrátt fyrir allt eru enn þá allmörg þó nokkuð vel rekin myndarleg fjölskyldubú, ekki verksmiðjur, í svínaræktinni, dreifð um landshlutana. Ég er ekki með nákvæmar tölur í kollinum, en ég þekki allmarga þessara aðila á Vesturlandi, Norðurlandi, Suðurlandi. Sama á að nokkru leyti við í eggjaframleiðslu. Kannski er kjúklingaframleiðslan, alifuglaframleiðslan lengst gengin í átt til samþjöppunar og þróunar.

En það kemur í ljós þegar þetta er skoðað að það er samt samofið vegna þess að þessir aðilar eru stórir viðskiptavinir fóðurframleiðendanna og taka á sig mikið af flutningskostnaðinum og dreifingarkostnaðinum. Þessir aðilar eru stórir í slátrun og skaffa hráefnin í kjötvinnslur um allt land o.s.frv.

Þetta þarf að skoða og vonast ég til að utanríkismálanefnd og atvinnuveganefnd skoði það mjög vel saman. Keðjuverkunin og samþættingaráhrifin í þessu eru miklu stærri en menn oft vilja vera láta þegar þeir hrökkva ofan í umræðu um hefðbundinn landbúnað og svo eitthvað bara allt annað og alveg óskylt. Það er ekki svo.

Það er auðvitað útúrsnúningur sem er neðan við virðingu hv. þingmanns að ég sé á móti alþjóðlegum viðskiptum eða „frjálsum“ viðskiptum. En óheft markaðshyggja og óheftur kapítalismi í þessu sem tekur ekkert tillit til umhverfissjónarmiða, hvað þá félagslegra sjónarmiða, mun ekki leiða til velfarnaðar.

Hvaðan koma kjúklingabringur í Vestur-Evrópu aðallega núna? Þær koma frá Kína. (Forseti hringir.) Þar eru vængirnir og lappirnar klipptar af og notaðar heima fyrir en bringurnar eru fluttar til Evrópu. (Forseti hringir.) Telur hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson að það sé auðvelt um vik varðandi uppruna þessarar vöru, (Forseti hringir.) hvernig farið var með dýrin? Hvað fékk fólkið í laun sem ól þau o.s.frv.?