145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[16:05]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni innlegg hans. Það er tvennt sem mig langar að ræða við hv. þingmann. Í fyrsta lagi ræddi hv. þingmaður um frumvarp sem efnahags- og viðskiptanefnd sendi til ríkisstjórnarinnar vorið 2014 um þunna eiginfjármögnun. Nú liggur það fyrir í endurskoðaðri mynd eins og ég kom að í minni ræðu. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki eðlilegt, í ljósi þess að þverpólitískur vilji þingsins hefur verið undirstrikaður með þeirri málsmeðferð sem var samþykkt fyrir tveimur árum, að annaðhvort verði leyft að mæla fyrir endurskoðaðri gerð frumvarpsins áður en þing fer í hlé eða að efnahags- og viðskiptanefnd taki hreinlega málið upp á sína arma og flytji það, ljúki því þannig. Hvort hann sjái því nokkuð til fyrirstöðu í ljósi þess að nefndin hefur lýst vilja sínum í málinu og frumvarpið hefur verið endurskoðað út frá þeim umsögnum sem hafa borist. Það er mér að meinalausu hver nákvæmlega flytur málið, bara að við fáum inn þessar reglur sem við erum í raun og veru langt á eftir öðrum þjóðum að innleiða.

Hitt sem ég vil nefna við hv. þingmann er að hann ræddi tillögu þingflokks Vinstri grænna um rannsókn á umfangi aflandsfélaga og vísaði til þess að ríkisstjórnin hefði þegar ákveðið að skipa starfshópa til að skoða það mál. En það er þó þannig, í ljósi stærðargráðu þessa máls, að ég tel enn þá að þingið eigi eftir að taka skýra afstöðu til þess hvernig eigi nákvæmlega að standa að slíkri rannsókn. Það er ekki það sama að framkvæmdarvaldið á hverjum tíma skipi starfshópa eða þingið komi sér saman um nefnd óháðra sérfræðinga eins og tillaga okkar gekk út á. Sú tillaga liggur í þinginu hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki ástæðu til að við ljúkum afgreiðslu þeirrar (Forseti hringir.) tillögu þannig að Alþingi taki utan um rannsóknina á málinu til að tryggja einmitt sem besta sátt til framtíðar um þessi stóru og mikilvægu mál.