145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[17:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er engu að síður mjög mikilvægt að menn séu meðvitaðir um það sem gert er á hverjum tíma og menn hafi stefnu. Ég átta mig út af fyrir sig fyllilega á því að litla Ísland muni ekki umbylta skattaviðmiðum í heiminum og eitt og sér bera þann kyndil til fulls sigurs í heiminum að við útrýmum allri skaðlegri skattasamkeppni. Nú er ég mikill áhugamaður um það og hef lengi verið og við hæstv. fjármálaráðherra höfum oft átt um það orðaskipti, sem ég hef kallað baráttu Norðurlandanna t.d. almennt gegn skaðlegri skattasamkeppni, það sem kallað er á norrænum „skadelig skattekonkurrence“ og er gamalkunnugt og margnotað hugtak og orðtak í norrænu samstarfi. En það skiptir máli hvaða röddu menn tala í þessum efnum. Í þeim tilvikum sem við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra ræddum um endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar, um endurgreiðslu á kostnaði vegna kvikmyndagerðar og um rammalöggjöf um nýfjárfestingarsamninga eða ívilnunarsamninga, var Ísland í öllum tilvikum langt á eftir nálægum löndum og samkeppnislöndum að grípa til þessara ráðstafana. Þetta var komið alls staðar í kringum okkur. Við vorum í þeim erfiðu sporum að geta ekki sagt við aðila sem höfðu kannski áhuga á því að koma og fjárfesta hér að þeim stæði eitthvað sambærilegt til boða og í Kanada, Svíþjóð, Noregi eða hvar það nú var. Og þá er raunsæi að horfast í augu við það.

Meðan menn eru innan allra heimilda þá finnst mér ekki skynsamlegt að blanda því saman við það sem við höfum verið að ræða aðallega í dag að öðru leyti. Hafandi sagt það þá vildi ég gjarnan að heimurinn væri þannig að þetta væri alls ekki til staðar, bara svo það misskiljist ekki þótt ég hafi átt þessi orðaskipti við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Það væri betra að kvikmyndagerðin hefði ekki getað gengið á lagið og teflt löndum hverju gegn öðru þannig að hlutfall endurgreiðslukostnaðarins er alltaf á uppleið. Menn lögðu af stað með 10–15%, komnir í 25% núna. (Forseti hringir.) Það er auðvitað einn vandinn við þetta. Menn ganga á lagið. Svona ívilnanir hafa (Forseti hringir.) tilhneigingu til þess að vera varanlegri en menn kjósa kannski og pressan er á að þær verði rýmkaðar. Að sjálfsögðu er ég ekki (Forseti hringir.) að mæla sérstaklega með þessu sem almennu framtíðarfyrirkomulagi sem slíku þótt ég leyfi mér þau skoðanaskipti við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem ég hef átt.