145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

789. mál
[18:38]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða pottana; tillögu til þingsályktunar um það hvernig við ráðstöfum þessum 5,3%. Það hefur sýnt sig að full þörf er á því að hafa þennan pott til að koma til móts við þær byggðir sem missa aflaheimildir og eiga undir högg að sækja.

Öll viljum við halda uppi byggð í landinu. Þróunin hér hjá okkur er einfaldlega sú að fiskvinnslan er öll að færast á suðvesturhornið. Meira en helmingur af fiskvinnslunni er í klukkutímafjarlægð frá flugvellinum. Þróunin er þannig. Ferskfisksútflutningur er að stóraukast. Þá gefur augaleið að þeir staðir sem eru lengst frá flugvellinum eiga undir högg að sækja. Það er með öðrum orðum verið að koma til móts við þessar byggðir með því að úthluta þeim þessum heimildum.

Eins og fram hefur komið úr þessum stól hafa verið gerðar skýrslur og rannsóknir á því hvernig til hefur tekist með þessum útfærslum. Við höfum hér nokkrar útfærslur. Við erum með strandveiðar, við erum með bætur, rækju- og skelbætur, við erum með sérstakan stuðning til byggðarlaga, þennan byggðakvóta, og svo er komið aflamark Byggðastofnunar, línuívilnun, frístundaveiðar o.s.frv.

Strandveiðarnar voru svolítið umdeildar fyrst en ég held að í dag ríki nokkur sátt um þær veiðar. Strandveiðarnar eru að gera mikið fyrir hinar dreifðu byggðir. Þó svo að reynslan sýni að mikið af þeim fiski er unnið hér á suðvesturhorninu hafa þær samt sem áður gríðarlega mikil áhrif á hinar dreifðu byggðir og þessar smærri hafnir.

Við getum deilt um skiptinguna innbyrðis, hvernig við skiptum því, hvort það er betra að setja þetta í strandveiðar eða í byggðakvóta. Reynslan er reyndar sú með byggðakvótann að það hefur verið ósætti heima fyrir þar sem sveitarstjórnir hafa verið að úthluta. Það er eins og gengur þegar meiri eftirspurn er en framboð. En heildaráhrifin af byggðakvótanum — eins og segir í einni af þessum skýrslum, skýrslu Vífils Karlssonar — eru þau að almenni byggðakvótinn skili mestu byggðafestuáhrifunum af þeim pottum sjávarútvegsins sem lengst hefur verið beitt. Þrátt fyrir deilur um þann pott er sá pottur að virka.

Það hefur líka komið fram að fulllítil reynsla er komin á þennan byggðakvóta Byggðastofnunar, aflamark Byggðastofnunar, þar sem gerðir eru samningar og þá til lengri tíma, allt að sex árum. Það er þá ákveðin festa fyrir þær byggðir sem hafa orðið fyrir áföllum og veiðiheimildir hafa farið. Það er því ekki vitlaust að sjá til eitt árið enn, ef tekið er á þessu aftur eftir eitt ár eins og lagt er til, þ.e. að aftur verði farið yfir þetta á næsta ári.

Línuívilnunin er líka dálítið umdeild. Línuívilnun var komið á til að skapa störf í landi. Í raun er verið að færa störf af sjó í land, og sýnist sitt hverjum um það. Það eru kostir og gallar við þá aðferð. Þess má geta að talsvert er um það að verið sé að keyra línunni landshorna á milli eftir þjóðvegum landsins með tilheyrandi olíukostnaði og mengun. Engu að síður kemur línuívilnun í næsta sæti á eftir almenna byggðapottinum í þessum skýrslum hvað byggðafestuáhrif varðar.

Eins og fram hefur komið hjá fyrri ræðumönnum er sá galli við úthlutun úr þessum potti, þessum 5,3%, að ár eftir ár er í raun úthlutað meiru en efni standa til. Með öðrum orðum: Það er farið fram yfir á heftinu, ef við getum orðað það svo. Hérna kemur fram að árið 2013/2014 vantaði 7.000 tonn af þorski í skiptipottinn. 2014/2015 vantaði 200 tonn af þorski, 738 tonn af ýsu, 610 tonn af steinbít og 412 tonn af ufsa. Á árinu 2015/2016 er útlit fyrir að það vanti 6.400 tonn af þorski og 492 tonn af ufsa. Það má vera ljóst að við þurfum að brjóta þessa úthlutun upp og finna lausn á því hvernig við getum úthlutað þannig að ekki verði farið fram úr áætlun á hverju ári.

Það eru einhverjar leiðir til í því. Ég tek undir með hv. þm. Kristjáni Möller að þessi 6.000 tonn sem er úthlutað og vantar á þessu ári, það er eiginlega ekki mjög fýsilegt að taka alla þá skerðingu, þótt alveg mætti færa rök fyrir því, á einu bretti af næstu úthlutun. Einhverjar leiðir þurfum við að finna. Ég bind vonir við að ef þetta fer til atvinnuveganefndar aftur nái nefndarmenn aðeins að skoða það og fara yfir hvernig hægt er að bregðast við því. Mér dettur ein leið í hug, það er að fara eftir ályktun frá Landssambandi smábátaeigenda. Þar er bent á að menn óski eftir því að fá fleiri tegundir inn í línuívilnun. Þeir fara fram á að keila og langa fari í þann pott. Ég get ímyndað mér að með því að minnka álag hjá Fiskistofu, í skiptimarkaðnum þar sem þeir eru að skipta þessum aflaheimildum og reyna að fá þorsk fyrir — að það mundi aðeins létta á þeim. En stærsti munurinn held ég að felist samt í (Forseti hringir.) loðnuveiðunum. Við erum að úthluta út á væntanlegar loðnuveiðar þar sem úthlutun á loðnu kemur seint. En ég treysti því að við förum aðeins nánar út í það.