145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

ný skógræktarstofnun.

672. mál
[21:53]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að koma inn í þetta mál og þakka hv. framsögumanni fyrir framsöguna. Ég ætla að byrja á því sem var endað á en eitt af því sem er gjarnan vísað í í þinginu er að heildarendurskoðun á einu og öðru, stórum málaflokkum, verður til þess að ákveðin mál eru sett til hliðar eða ekki tekið á þeim. Oft er það vegna þess að það er eitthvað sem þykir pínulítið erfitt að takast á við. Ég held að það skýri sig m.a. í umsögn frá skógræktarfólkinu, þ.e. Skógrækt ríkisins og landshlutasamtökunum. Þar kemur fram að mikið og gott samráð hafi verið haft og vel að þessu staðið að öllu leyti og allt það. Síðan þegar kemur að samráði við skógarbændur gera þeir athugasemdir. Með leyfi forseta segir í athugasemd um 6. gr.:

„Félag skógarbænda á viðkomandi svæði á í dag fulltrúa í stjórn hvers landshlutaverkefnis, en aðrir stjórnarmeðlimir eru tilnefndir af Skógrækt ríkisins og án tilnefningar. Þar sem verkefnisstjórnin verður lögð niður við sameiningu skógræktarstarfsins þykir mikilvægt að skapa samráðsvettvang þar sem skógarbændur fá að koma að ákvörðunum um áherslur og framkvæmd viðkomandi verkefna, auk þess sem skógareigendur hafi umsagnarhlutverki að gegna við ákvörðun viðmiða fyrir endurgreiðslu samþykkts kostnaðar.“

Það er verið að fækka í þeim hópi sem kemur til með að taka ákvarðanir. Þess vegna skil ég áhyggjur þeirra skógarbænda sem vilja koma inn í þetta samráð. Eins og hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir kom inn á er hægt að kveða fastar að orði og gera þetta enn skýrara en hér er gert. Það sem ég ætlaði að segja áðan og kemur fram í umsögn landshlutasamtaka og Skógræktarinnar er að þeir telja ekki ástæðu til að formgera samráðið frekar í þessum lagatexta, en segja svo að hugsanlega mætti færa ákvæði þess efnis inn í skógræktarlög eða reglugerð þegar reynsla er komin á samræðu. Eitt af því sem við gerum allt of mikið af, finnst mér, er að við setjum gríðarlegt magn af reglugerðum. Mér finnst svolítið verið að gera lítið úr áhrifum skógarbænda og áhyggjum þeirra. Eins og kemur fram í öðrum umsögnum fagna flestir því að þetta eigi sér stað og ég er samþykk því, en það er hægt að vanda sig betur við samtalið. Ég held að það hefði þurft að gera.

Í umsögn Félags skógarbænda á Suðurlandi eru rakin nokkur atriði og bent að það sé svolítið í lausu lofti hvernig stjórnskipulag nýrrar stofnunar verði og hver aðkoma skógarbænda verði, þ.e. varðandi mótun, skipulagningu, markmiðasetningu og eftirfylgni með verkefnum stofnunarinnar. Ég get tekið undir það. Mér finnst að það gæti verið skýrara í lagatextanum. Því er líka haldið til haga að gæta þurfi þess í orðræðunni að verið er að sameina verkefni í nýrri stofnun en ekki um neina yfirtöku að ræða.

Það eru fleiri sem koma inn á samtal og samráð. Landssamtök skógareiganda gera það líka og vilja kveða fastar að orði en hér er gert. Mér finnst að það ætti að taka betur tillit til þess. Það er verið að skipa núna þriggja manna stjórn og í henni er einn frá Félagi skógarbænda. Það á að samþykkja starfs- og fjárhagsáætlanir og allt þetta, en líka inni á svæðunum. Ég held að því sé hægt að breyta og kveða fastar að orði með því að búa til framhaldsnefndarálit og koma þannig til móts við þau sjónarmið.

Það sem mig langaði líka að segja er að talað er um að auka megi aðkomu skógarbænda að ákvarðanatöku vegna skógræktar á lögbýlum með því að efla hlutverk fagráðs. Nú kann ég ekki upp á tíu hvernig þetta virkar í dag en tel hins vegar að þeir hafi séð ástæðu til að benda á þetta sem leið á móti því að ekki er gert ráð fyrir nema þremur í þessa stjórn, að fagráðin verði efld á þennan hátt. Það er gerð tillaga um þá breytingu og bent á að sú tillaga mundi skapa betra jafnvægi milli Skógræktarinnar og skógarbændanna, þ.e. ef landssamtökin fá fulltrúa landshlutaverkefnanna og verða þá með tvo fulltrúa á móti tveimur fulltrúum Skógræktarinnar, einum frá Skógræktarfélagi Íslands, einum frá Landbúnaðarháskólanum og einum frá ráðuneytinu. Það er með þetta eins og í fleiru, það snýst oft um traust á því sem verið er að gera og að engum finnist á sér brotið og yfir sig stigið. Þrátt fyrir mjög jákvæðan tón frá flestum er þetta áhyggjuefni.

Ég hef gert starfsmannamál að umtalsefni í málum sem við höfum rætt undanfarið. Í áliti nefndarinnar er talað um að Skógræktin sé ríkisstofnun og um réttindi starfsmanna stofnunarinnar gilda lög, þrátt fyrir að einstaka starfsmenn séu með annað ráðningarform. Ég hefði kannski átt að spyrja framsögumann í andsvari hvort það yrði mikil fækkun í því samhengi. Það hefur ekki komið fram hvort það fækkar mikið við sameiningu starfsfólksins og hvort það sé klárt að þeim sem höfðu þennan starfa og óskuðu eftir því að halda áfram hafi verið boðin störf, því að það virðist lagt til hér að slíkt sé gert.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að hafa þetta lengra. ég ætlaði rétt aðeins að koma inn í þetta mál. Þetta er jákvætt en hér eru agnúar sem hægt er að sníða af ef vilji er fyrir því, meira að segja í einföldu framhaldsnefndaráliti, það þarf ekki að gera flóknari breytingar en svo.