145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda.

797. mál
[23:36]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Svo ég taki fyrst síðari hluta þess verð ég að segja að það olli mér vonbrigðum þegar eftirgerð samkomulagsins 2011 kom fram. Þá var gert samkomulag við Samband íslenskra sveitarfélaga og var ljóst að ekki var einhugur meðal sveitarfélaga um hvernig túlka ætti það samkomulag. Það var alveg ljóst að Reykjavíkurborg túlkaði það með öðrum hætti en ríki og Samband íslenskra sveitarfélaga. Það hefur áður komið fram í þessum sal. Það olli mér vonbrigðum og málið hefur gengið svo langt að einn tónlistarskóli hér í borg fór í mál við borgina hreinlega vegna þessarar túlkunar.

Ég treysti mér ekki alveg til að fara yfir málsbætur Reykjavíkurborgar í því nema kannski að því leytinu til að ég þekki málið frá fyrra lífi mínu sem varaborgarfulltrúi hér um tíma. Umhverfi tónlistarskóla í Reykjavík er þannig að þar hefur borgin átt við svokallað samkeppnisumhverfi þar sem henni er gert skylt að styrkja alla skóla eftir sambærilegum reglum án þess að potturinn stækki endilega, sem hefur valdið því að borgin hefur verið að reyna að móta sér einhverja stefnu án þess að hafa stjórn á því hvernig þessi mál þróast.

Það er kannski ekki mitt að svara því nákvæmlega hvernig þau mál standa núna hjá Reykjavíkurborg. Það sem ég vil hins vegar segja er að það liggur alveg fyrir að túlkun borgarinnar á samkomulaginu var önnur en Sambands íslenskra sveitarfélaga og ríkisins. Ég er sammála hæstv. ráðherra um það.

Hvað varðar hins vegar framtíðarlausnina verð ég að segja að ég tek undir með hv. þingmanni. Ég sé ekki að þetta mál, sem gildir fyrir árin 2016, 2017 og 2018, dugi til þess að skapa hér einhverja framtíðarsýn og frið um málið. Það er náttúrlega stóra málið, alveg óháð öllu því sem á undan er gengið (Forseti hringir.) í samskiptum ríkis og borgar og sveitarfélaga, að við verðum (Forseti hringir.) að lenda einhverri framtíðarsýn þannig að við þurfum ekki að vera að ræða þetta hérna. Það er stóra verkefnið, frú forseti.