145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

staða og rekstrarvandi framhaldsskólanna.

[16:07]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Það kom þó fram í svari hæstv. ráðherra, sem við teljum okkur vita sem fylgst höfum með, að þó að ráðherrann segi að ekki sé verið að beita niðurskurði í framhaldsskólakerfinu er engu að síður verið að því. Sá niðurskurður er bara dulbúinn með því að stilla reiknilíkanið skakkt og beita því til þess að ná einhverjum dulbúnum niðurskurði, t.d. með því að virða ekki raunrekstrarstöðu tiltekinna skóla og stilla launastikuna rangt. Nú kemur fram í máli ráðherra að enn er 7,6% skekkja á launastikunni. Það er ekki einu sinni gert ráð fyrir því að hún komist í lag fyrr en 2018. Kjarasamningar kennara renna út í október. Hvernig ætlar ráðuneytið þá að sjá til þess að staðið verði við kjarasamninga kennara?

Svo vitum við að allt mun þetta koma niður á skólastarfinu sjálfu og þjónustunni við nemendurna. Maður hlýtur að spyrja sig hvort skólarnir verði þá í færum til að uppfylla lögbundna skyldu sína við nemendur. Hver er metnaður menntamálaráðherra fyrir hönd framhaldsskólanna í landinu? Maður hlýtur að spyrja sig því að ekki virðist vera nein raunveruleg menntastefna í gildi.

Allar aðgerðir sem boðaðar hafa verið af hálfu menntamálaráðuneytisins á þessu skólastigi sem öðrum ganga út á að herða skilyrði, þrengja og skera niður. Það er verið að beita fjárveitingavaldi til að vísa fullorðnu fólki út úr framhaldsskólanum. Hér er boðað nýtt námslánafrumvarp sem líka skerðir, herðir og þrengir skilyrði og möguleika fólks til náms. Það er eins og það sé engin raunveruleg menntastefna í gildi, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, og það er sorglegt í góðærinu þegar við höfum næga fjármuni til að smyrja og næra stoðir samfélagsins og menntakerfisins.